Erlent

Sagði einhvern hafa spreyjað framan í sig

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Nam, var fluttur á sjúkrahús en lést á leiðinni.
Kim Jong Nam, var fluttur á sjúkrahús en lést á leiðinni. Vísir/AFP
Kim Jong Nam, hálfbróðir Kim Jong Un leiðtoga Norður-Kóreu, sagði læknum að ráðist hefði verið á sig með eiturúða. Hann hné niður á flugvelli í Kuala Lumpur í Malasíu í gær og var fyrst fluttur á heilsugæslustöð flugvallarins. Hann lést svo á leiðinni í sjúkrahús.

Fjölmiðlar í Suður-Kóreu fullyrða að tvær konur, sem taldar eru vera útsendarar frá Norður-Kóreu, hafi ráðist á hann á flugvellinum. Konurnar eru sagðar hafa flúið í leigubíl og mun lögreglan í Malasíu vera að leita að þeim.

Kim Jong Nam var í útlegð frá Norður-Kóreu eftir að hálfbróðir hans tók við völdum í einræðisríkinu árið 2011. Lengi vel var talið að hann myndi taka við af föður sínum, Kim Jong Il, en það olli mikilli hneykslan í heimalandinu þegar hann var stöðvaður við að reyna að lauma sér inn í Disneyland í Japan árið 2001.

Lögreglan í Malasíu segir að vegabréf með nafninu Kim Chol hafi fundist á honum, en samkvæmt heimildum AP fréttaveitunnar er vitað til þess að Kim Jong Nam hafi ferðast undir þessu nafni. Talið er að hann hafi búið í Macau, Singapúr og Malasíu.

Talið er líklegt að hann hafi verið myrtur vegna skipana frá bróður sínum Kim Jong Un, en fregnir hafa borist af því að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem ráðist hefur verið á hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×