Innlent

Könnun MMR: Íslendingar hafa jafn miklar áhyggjur af spillingu og heilbrigðisþjónustu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Íslendingar hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu.
Íslendingar hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu. Vísir/Vilhelm
Íslendingar hafa mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum. Þetta sýnir nýleg könnun MMR þar sem athugað var af hverju landsmenn hafi mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi.

Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar kváðust 49,2 prósent hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og 48,9 prósent af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum.

Rannsóknafyrirtækið Ipsos gerði sambærilega könnun í nóvember árið 2016 sem náði til 25 landa. Í þeirri könnun kom í ljós að heilt á litið hafði fólk í þessum löndum mestar áhyggjur af atvinnuleysi (38 prósent), fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (34 prósent) og spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum (33 prósent).

Þegar litið er til einstakra landa sést að líkt og á Íslandi höfðu landsmenn í Ungverjalandi (63 prósent), Póllandi (49 prósent) og Brasilíu (48 prósent) mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Í Ungverjalandi var spilling (56 prósent) í öðru sæti yfir það sem fólk hafði mestar áhyggjur af og fátækt (56 prósent) í því þriðja, líkt og á Íslandi. Í Ísrael (51 prósent), Tyrklandi (66 prósent) og Bandaríkjunum (33 prósent) reyndust mestu áhyggjurnar snúa að hryðjuverkum.

Tæplega 37 prósent svarenda í könnun MMR kváðust hafa áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuð. Íslendingar virtust síst hafa áhyggjur af hryðjuverkum, aðgengi að lánsfé og atvinnuleysi sem öll voru tilgreind af um tvö prósent svarenda.

 

Mynd/MMR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×