Enski boltinn

Manchester City staðfestir að Jesus verður frá næstu mánuðina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gabriel Jesus verður frá keppni í tvo til þrjá mánuði.
Gabriel Jesus verður frá keppni í tvo til þrjá mánuði. vísir/getty
Manchester City hefur staðfest orðróm dagsins um að brasilíska ungstirið Gabriel Jesus er ristarbrotinn og verður hann því frá keppni næstu mánuðina. Hann missir því af restinni af tímabilinu með City.

Þessi 19 ára gamli framherji þurfti að fara af velli eftir fimmtán mínútur í sigri City á móti Bournemouth á útivelli í gær og er komið í ljós að hann er ristarbrotinn.

Jesus hefur byrjað frábærlega í ensku úrvalsdeildinni en hann er búinn að skora þrjú mörk í fimm leikjum síðan hann kom frá Palmeiras í Brasilíu. Þar kvaddi hann sem meistari og besti leikmaður brasilísku úrvalsdeildarinnar.

Með Jesus í svona miklu stuði er City búið að vinna þrjá leiki í röð og lyfta sér upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar en ekki er langt síðan liðið datt úr hópi efstu fjögurra liðanna.

City er nú átta stigum á eftir Chelsea þegar þrettán umferðir eru eftir af deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×