Innlent

Valentínusardagurinn í harðri keppni við konudaginn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hefðir fólks á Valentínusardag eru misjafnar á milli þjóða.
Hefðir fólks á Valentínusardag eru misjafnar á milli þjóða. vísir/afp
Dagur elskenda, eða Valentínusardagurinn, er haldinn hátíðlegur um víða veröld í dag. Honum hefur verið fagnað síðan á 14. öld, fyrst í Evrópu, en síðar hafa Bandaríkjamenn verið iðnastir við að halda merkjum hans á lofti.

Valentínusardagurinn nýtur sívaxandi vinsælda hér á landi, þó ekki sé hægt að segja að hátíðarhöldin séu orðin að rótgróinni hefð í íslensku samfélagi. Segja má að vinsældir Valentínusardagsins á Íslandi megi rekja til Valdísar Gunnarsdóttur heitinnar sem var ötul við að vekja athygli á honum í útvarpi, en hún starfaði sem útvarpskona um langt skeið.

Keppir við konudaginn

Það sem dregur nokkra athygli frá degi elskenda, og hefur líklega gert það að verkum að dagurinn er ekki vinsælli hér á landi en raun ber vitni, er konudagurinn. Konudagurinn kemur upp á svipuðum tíma og Valentínusardagur, en hann er fyrsti dagur Góu sem þýðir að hann er sunnudagur á tímabilinu 18. til 24. febrúar. Um er að ræða séríslenska hefð sem Íslendingar hafa haldið fast í, sem og bóndadaginn.

„Konudagurinn er alltaf stærstur en Valentínusardagurinn fer mjög ört stækkandi,“ segir Díana Allansdóttir, deildarstjóri Blómavals í Skútuvogi. „Á Valentínusardeginum vilja menn helst rósir en á konudeginum eru blómvendir vinsælastir. Viðskiptavinahópurinn er einnig mjög mismunandi. Íslendingar koma frekar á séríslenska konudeginum,“ bætir hún við.

Díana Allansdóttir var í óðaönn við að undirbúa Valentínusardaginn þegar ljósmyndara Vísis bar að gerði.vísir/eyþór
Ástfanginna freistað með rósum og konfekti

Skiptar skoðanir eru á ágæti Valentínusardagsins og vilja sumir meina að þetta séu dagur kaupmanna, en ljóst er að Valentínusardagurinn er hvað stærstur hjá blómasölum og súkkulaðiframleiðendum. Aðrir eru þó þeirrar skoðunar að það sé hið besta mál að tileinka ástföngnum einn dag á ári og hika ekki við að festa kaup á rósum, konfekti og ýmsum hjartalaga varningi.

Misjafnar hefðir á milli landa

Valentínusardeginum er fagnað víða um heim en þó eru hefðirnar ekki alls staðar eins – þó þær eigi það flestar sameiginlegt að vera nokkuð neysludrifnar. Hefðirnar eru svipaðar í hinum vestrænu ríkjum þar sem fólk kaupir oftar en ekki rósir, konfekt og skartgripi, auk þess sem pör fara saman út að borða eða gera sér glaðan dag.

Talið er að Bandaríkjamenn sendi frá sér um 190 milljón Valentínusarkort á ári hverju og er gríðarlega stór þegar kemur að auglýsingasölu. Þá senda Bretar um 25 milljón kort og eru sagðir eyða um 1,3 billjón pundum í kort, blóm, súkkulaði og aðrar gjafir.

Finnar tileinka Valentínusardaginn ekki endilega elskendum heldur einnig vinum og vandamönnum því þar í landi heitir dagurinn ystävänpäivä sem á íslensku myndi útleggjast sem vinadagurinn.

Valentínusardagurinn er í rómönsku Ameríku ýmist kallaður dagur elskenda, dagur ástar og vináttu (til dæmis í Kosta Ríka, Mexíkó og Púertó Ríkó), eða dagur ástúðar (í Guatemala) svo fátt eitt sé nefnt. Brasilíubúar eru með eigin Valentínusardag, elskendadaginn, sem haldinn er 12. júní ár hvert.

Dagurinn nýtur gríðarlegra vinsælda í Asíu, þrátt fyrir að strangtrúuðum hindúum og múslimum þyki nóg um og þyki þessi vestræna, innflutta, hefð ógna þeim innlendu. Valentínusardagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur á Indlandi árið 1992 og hefur notið stigvaxandi vinsælda síðan.

Þessi listi er hins vegar langt frá því að vera tæmandi og virðast flestir hafa hvern sinn hátt á þegar kemur að Valentínusardeginum.

Blöðrusali bíður eftir væntanlegum viðskiptavinum.vísir/getty
En hver er þessi Valentínus?

Hefðir í kringum daginn virðast ekkert hafa að gera með dýrlingana sem báru nafnið Valentínus, að því er segir á Vísindavefnum. Heilagur Valentínus er nafn yfir tvo eða þrjá píslarvotta í sögu kirkjunnar. Annar var rómverskur prestur og læknir sem varð fyrir barðinu á Kládíusi II, Rómakeisara, í ofsóknum hans á kristnum mönnum. Hinn var biskupinn af Terní á Ítalíu.

Mögulegt er að sögurnar af þessum tveimur mönnum eigi uppruna sinn í einum og sama atburðinum en hafi brenglast í gegnum tíðina. Um þriðja manninn er lítið vitað og eru heimildir almennt óljósar og því ekki hægt að segja til um hvenær Valentínus dó, né hvort hann hafi verið einn maður, tveir eða þrír.

Ýmsar þjóðsögur eru um uppruna dagsins. Ein sagan er meðal annars sú að Kládíus hafi talið piparsveina betri hermenn en fjölskyldumenn og því bannað hermönnum sínum að kvænast. Þessu hafi Valentínus verið ósammála og gift hermennina á laun. Valentínus var samkvæmt söginni hálshöggvinn þennan dag og í kjölfarið titlaður verndari elskenda.

Allt lagt í sölurnar.vísir/epa

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×