Enski boltinn

Enginn meistarabragur á Tottenham í stóru leikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frammistaða Tottenham á móti Liverpool var ekki til útflutnings.
Frammistaða Tottenham á móti Liverpool var ekki til útflutnings. Vísir/Getty
Tottenham hefur gert frábæra hluti undir stjórn Mauricio Pochettino og verið í toppbaráttunni bæði á þessu tímabili og í fyrra.

Tapið á móti Liverpool um síðustu helgi, þegar Tottenham gat minnkað forskot Chelsea í sjö stig, var aftur á móti enn eitt dæmið um hvað hefur helst klikkað hjá lærisvinum Mauricio Pochettino undanfarin tímabil.

Tottenham gengur nefnilega afar illa í stóru leikjunum það er í leikjum á móti efstu sex félögunum í ensku úrvalsdeildinni og í leikjum í Meistaradeildinni.

Jamie Carragher og félagar í Monday Night Football á Sky Sports fóru yfir dapurt gengi Spurs á stóra sviðinu.

Þar kom fram að Tottenham hafi aðeins unnið 24 prósent af stóru leikjunum sínum en aftur á móti 60 prósent annarra leikja. Tottenham hefur spilað 37 leiki á móti efstu sex félögunum í ensku úrvalsdeildinni og liðum í Meistaradeildinni en aðeins unnið 9 þeirra. Töpin eru alls sextán talsins.

Slakt gengi Spurs- liðsins á móti bestu liðunum sést hvergi betur en í útileikjum liðsins á móti sex efstu liðum ensku úrvalsdeildarinnar.

Tottenham hefur aðeins unnið 1 af 15 útileikjum sínum (og fengið samtals 9 stig) á móti Liverpool, Chelsea, Manchester United, Manchester City og Arsenal frá því í ágúst 2014. Liverpool er sem dæmi með 5 sigra og 20 stig í 14 útileikjum á móti stóru félögunum.

„Ef Tottenham vinnur ekki stóru leikina og breyta ekki þessari tölfræði þá munu þeir aldrei vinna neitt,“ sagði Jamie Carragher við Sky Sports.

Jamie Carragher og Gary Neville ræddu málið betur og Neville benti á það að Tottenham hafi eytt mun minna í leikmenn sem og að meðalaldur Tottenham-liðsins er mun lægri en hinna liðanna sem skipa efstu sex sætin í ensku úrvalsdeildinni. Það má lesa meira um það hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×