Innlent

Ánægja með störf biskups minnkar enn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. vísir/anton brink
29 prósent svarenda í Þjóðarpúlsi Gallup segjast vera ánægð með störf Agnesar M. Sigurðardóttur biskups en á haustmánuðum var mælt traust almennings til þjóðkirkjunnar, ánægja með störf biskups og viðhorf til aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Þeim sem eru ánægðir með störf Agnesar hefur fækkað ár frá ári frá því hún tók við embætti 2012 en þá mældist 45 prósent ánægja með störf hennar. Nú segjast 21 prósent vera óánægt en nær helmingur var hvorki ánægður né óánægður. Þá tóku rúmlega 17 prósent ekki afstöðu til spurningarinnar.

Af þeim sem tóku afstöðu til spurningar er varðar traust til þjóðkirkjunnar sögðust 38 prósent bera mikið traust til kirkjunnar sem er svipað hlutfall og árið á undan. Nærri 32 prósent báru lítið traust til þjóðkirkjunnar og hátt í 31 prósent hvorki mikið né lítið.

Þá var meirihluti svarenda hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju, eða rúmlega 55 prósent, en það er sama hlutfall og árið á undan. Um fjórðungur var andvígur aðskilnaði, það er um 26 prósent, en 18 prósent voru hvorki hlynnt né andvíg aðskilnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×