Enski boltinn

Nýtt vandræðalegt met hjá Leicester í markaleysi meistara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svipbrigði Jamie Vardy í leiknum við Swansea um helgina segja mikið til um stöðuna á liðinu.
Svipbrigði Jamie Vardy í leiknum við Swansea um helgina segja mikið til um stöðuna á liðinu. Vísir/Getty
Englandsmeistarar Leicester City töpuðu sínum fimmta deildarleik í röð á móti Swansea City í gær og hafa hvorki unnið deildarleik né skorað mark á árinu 2017.

Leicester City varð með því að leik sjötta marklausa leikinn sinn í röð fyrstu Englandsmeistararnir sem spila sex leiki í röð án þess að skora.

Nú eru liðnar 610 mínútur frá síðasta deildarmarki Leicester City en það skoraði Alsíringurinn Islam Slimani í 1-0 sigri á West Ham United á síðasta degi ársins 2016.

Á sama tíma hafa mótherjar liðsins skorað tólf mörk og tekið með sér sextán stig af átján mögulegum.

Leicester City var í 15. sæti þegar Islam Slimani skoraði umrætt sigurmark fyrir 44 dögum en er nú aðeins einu stigi frá fallsæti.

Gylfi og félagar í Swansea City sem unnu Englandsmeistarana 2-0 í gær voru átta stigum á eftir Leicester City þegar nýtt ár rann í garð en eru núna þremur stigum á undan. Ellefu stiga sveifla hjá þessum tveimur liðum á undanförnum 44 dögum.

Hull City, liðið er sem situr í fallsæti aðeins einu stigi á eftir Leicester City, hefur náð í sex fleiri stig og skorað sex fleiri mörk í undanförnum sex umferðum en Englandsmeistararnir.



Mikill munur á einu ári

Fyrstu sex deildarleikir Leicester City árið 2017

2. janúar - 0-0 jafntefli við Middlesbrough

14. janúar - 0-3 tap fyrir Chelsea

22. janúar - 0-3 tap fyrir Southampton     

21. janúar - 0-1 tap fyrir Burnley

5. febrúar - 0-3 tap fyrir Manchester United

12. febrúar - 0-2 tap fyrir Swansea City

1 stig og 0 mörk í 6 leikjum

Mótherjar: 16 stig og 12 mörk



Fyrstu sex deildarleikir Leicester City árið 2016

2. janúar - 0-0 jafntefli við Bournemouth

13. janúar - 1-0 sigur á Tottenham

16. janúar - 1-1 jafntefli við Aston Villa

23. janúar - 3-0 sigur á Stoke City

2. febrúar - 2-0 sigur á Liverpool

6. febrúar - 3-1 sigur á Manchester City

14 stig og 10 mörk í 6 leikjum

Mótherjar: 2 stig og 2 mörk    




Fleiri fréttir

Sjá meira


×