Innlent

Telja Útlendingastofnun ekki taka mið af sérstakri stöðu hinsegin hælisleitenda

Hulda Hólmkelsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Samtökin 78 telja útlendingastofnun ekki taka mið af sérstakri stöðu hinsegin hælisleitenda
Samtökin 78 telja útlendingastofnun ekki taka mið af sérstakri stöðu hinsegin hælisleitenda Vísir/Stefán
Samtökin '78 telja Útlendingastofnun ekki taka mið af sérstakri stöðu hinsegin hælisleitenda. Þeir einstaklingar séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu og ætla samtökin að þrýsta á breytingar.

Ísland er að dragast aftur úr í alþjóðlegum samanburði á réttindum hinsegin fólks. Þetta er meðal þess sem rætt var á þjóðfundi Samtakanna '78 sem fór fram í ráðhúsi Reykjavíkur í gær. Helga Baldvins- og Bjargardóttir, framkvæmdastýra samtakanna, segir þá staðreynd vera sorglega.

„Því miður þá erum við að dragast aftur úr og þá sérstaklega varðandi réttindi transfólks og intersex fólks. En líka vantar almenna löggjöf sem bannar mismunun á grundvelli fleiri þátta en kynferðis,“ segir Helga.

Fram kom á fundinum að það sé ýmislegt sem þurfi að bæta varðandi andlega og líkamlega heilsu hinsegin fólks. Þá hafa samtökin ákveðið að þrýsta á breytingar í málefnum hinsegin hælisleitenda á Íslandi.

„Það voru tvær aðalhugmyndir sem voru nefndar í því samhengi. Annars vegar að Samtökin '78 myndu standa fyrir sérstökum stuðningshópi fyrir hinsegin hælisleitendur og veita þá bæði félagslegan og lagalegan stuðning. Hins vegar þarf að þrýsta betur á útlendingastofnun að fræða sig betur í málefnum hinsegin hælisleitenda og að hvaða leiti hinsegin hælisleitendur eru í sérstakri og viðkvæmri stöðu. Ekki bara gagnvart landinu sem þau eru að flýja frá heldur líka í landinu sem þau eru komin til og meðal annarra hælisleitenda.“

Hafið þið verið ósátt hingað til með ákvarðanir Útlendingastofnunar í málefnum hinsegin hælisleitenda?

„Já vegna þess að við teljum þau ekki taka mið af þessari sérstöku stöðu. Þau eru að senda fólk til baka til landa þar sem þau eru flokkuð samkvæmt almennum skilgreiningum sem örugg en öll stærstu hagsmunasamtök hinsegin fólks eru búin að benda á að þessi lönd eru ekki örugg fyrir hinsegin hælisleitendur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×