Innlent

Endur­upp­töku­nefndin ætlar að ljúka störfum undir lok mánaðarins

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðmundar og Geirfinnsmálið fyrir Hæstarétti í janúar 1980.
Guðmundar og Geirfinnsmálið fyrir Hæstarétti í janúar 1980. Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Endurupptökunefnd Guðmundar- og Geirfinnsmálsins hefur tilkynnt að hún muni ljúka störfum í lok þessa mánaðar.

„Þessu miðar áfram og er að komast á lokametrann,“ segir Björn L. Bergsson, formaður nefndarinnar, í samtali við Vísi um málið.

Í desember síðastliðnum var greint frá því að lögreglan á Austurlandi hefði tekið skýrslu af karlmanni í nóvember sem taldi sig hafa upplýsingar varðandi málið sem gætu haft áhrif á það hvort nefndin ákveði að taka upp málið að nýju, en upplýsingarnar vörðuðu hvarf Geirfinns Einarssonar.

Þeir Guðmundur og Geirfinnur voru alls ótengdir í lifanda lífi en málum þeirra var spyrt saman eftir dauða þeirra.

Björn L. Bergsson, formaður endurupptökunefndarinnar.Vísir
„Ekkert sem hafði áhrif á okkar niðurstöðu“

Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari vegna endurupptökubeiðni í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, lét nefndina vita af manninum sem vildi koma þessu upplýsingum á framfæri.

Endurupptökunefndin fékk gögn sem vörðuðu vitnisburð mannsins í hendurnar en eftir yfirferð á þeim tilkynnti hún settum saksóknara að nefndin teldi ekki þörf á frekari skoðun á þeirri ábendingu, að sögn Björns.

Það kom því ekkert úr þessari ábendingu?

„Nei, ekkert sem hefur áhrif á okkar niðurstöðu,“ svarar Björn endurupptökunefndin ákvað að fresta því að birta niðurstöðu sína vegna þessarar ábendingar.

Hann segir nefndina nú einungis vinna úr málinu eins og það kemur fyrir nefndina og er áætlað að ljúka því verki fyrir lok þessa mánaðar.

Frá meðferð málsins árið 1978.Vísir
Í júní síðastliðnum voru tveir kalrmenn handteknir og yfirheyrðir vegna rannsóknar á þætti málsins sem varðar Guðmund Einarsson. Þeir voru látnir lausir að lokinni yfirheyrslu.

43 ár frá hvarfi Guðmundar og Geirfinns

Guðmundar- og Geirfinnsmálið varðar mannshvörf sem bæði áttu sér stað árið 1974. Guðmundur Einarsson sást síðast í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974 eftir dansleik í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði. Eiginkona Geirfinns Einarssonar sá hann síðast klukkan 22:30 í nóvember sama ár samkvæmt gögnum lögreglunnar í Keflavík.

Næstu árin fór fram mikil rannsókn á málinu. Um sex árum frá hvarfi þeirra Guðmundar og Geirfinns voru þau Albert Klahn Skaftason, Erla Bolladóttir, Guðjón Skarphéðinsson, Kristján Viðar Viðarsson, Sævar Marinó Ciesielski og Tryggvi Rúnar Leifsson dæmd til fangelsisvistar Í Hæstarétti í febrúar árið 1980 vegna aðildar að dauða þeirra Guðmundar og Geirfinns.

Sævar Marinó Ciesielski fékk lengsta dóminn, eða sautján ára fangelsisvist. Kristján Viðar var dæmdur í sextán ára fangelsi, Tryggvi Rúnar 13 ára fangelsi, Guðjón í tíu ára fangelsi, Erla í þriggja ára fangelsi og Albert Klahn í 12 mánaða fangelsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×