María Þórisdóttir steig stórt skref á dögunum þegar hún spilaði sinn fyrsta fótboltaleik eftir langvinn og leiðinleg meiðsli.
María var búin að vera frá í eitt og hálft ár en núna er hún komin af stað og hefur sett stefnuna á Evrópumótið í Hollandi í sumar.
„Spilaði mínar fyrstu 75 mínútur í dag eftir eitt og hálft ár frá. Frábært að vera komin almennilega í gang. Horfi spennt á framhaldið,“ skrifaði María inn á Twitter-síðu sína.
Norðmenn hafa mikla trú á Maríu sem valdi það að spila fyrir Noreg frekar en Ísland. María er dóttir íslenska handboltaþjálfarans Þóris Hergeirssonar en á norska móður og hefur búið alla tíð í Noregi.
Hún átti frábæra innkomu í norska landsliðið árið 2015 þegar hún vann sér sæti í byrjunarliði liðsins á HM í Kanada. Fyrsti landsleikurinn hennar var einmitt á móti Íslandi í Algarve-bikarnum í mars 2015.
María er í norska landsliðshópnum á Algarve-bikarnum í Portúgal en í kvöld mætast einmitt Ísland og Noregur í fyrsta leik sínum í mótinu í ár. Hvort María fái að sðila aftur á móti Íslandi verður að koma í ljós en leikurinn hefst klukkan 18.30 að íslenskum tíma.
María er 23 ára miðvörður sem hefur spilað alla tíð með Klepp IL. Hún hefur leikið samtals átta A-landsleiki fyrir Noreg auk þess að spila 51 landsleik með yngri landsliðum Norðmanna frá 2008 til 2015.
Fótbolti