Enski boltinn

Voru algjörir klaufabárðar og skemmdu rútu síns eigin liðs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmaður Crystal Palace sem tengist málinu ekki neitt.
Stuðningsmaður Crystal Palace sem tengist málinu ekki neitt. Vísir/Getty
Stuðningsmenn Crystal Palace ætluðu að trufla liðsmenn Middlesbrough fyrir leik Palace og Boro í ensku úrvalsdeildinni um helgina en rugluðust alveg í ríminu með þeim afleiðingum að þeir trufluðu í raun undirbúning síns eigin liðs.

Stuðningsmenn Crystal Palace skemmdu rútu Crystal Palace aðeins nokkrum klukkutímum fyrir leikinn,  spreiuðu hana meðal annars í bak og fyrir og merktu hana Crystal Palace.

Seinna kom í ljós að vandræðaseggirnir héldu að um væri að ræða rútuna sem færi með lið á Selhurst Park.Það staðfestir einn starfsmanna Selhurst Park við Guardian.

Rútan umrædda var fyrir utan hótelið sem liðsmenn Crystal Palace en bæði leikmenn heimaliðsins og gestaliðsins gista á hóteli fyrir leikinn. Þessir klaufalegu stuðningsmenn Palace-liðsins voru ekki alveg með það á hreinu.

Kalla þurfti á nýja rútu til að fara með leikmenn Crystal Palace á leikinn. Skemmdirnar voru talsverðar en það mun líklega kosta um 40 þúsund pund að laga rútuna eða um 5,3 milljónir íslenskra króna.

Stuðningsmennirnir gátu þó andað aðeins léttar eftir leik því Crystal Palace náði að landa 1-0 sigri og tryggja sér dýrmæt stig í botnbaráttunni. Stigin nægðu liðinu til að komast upp úr fallsæti en það gæti breyst strax í kvöld vinni Leicester City lið Liverpool.  

Hér fyrir neðan má sjá myndir af rútunni af Twitter-síðu Rich Cook sem er harður stuðningsmaður Middlesbrough FC og hafði hann mjög gaman af öllu saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×