Innlent

Dóttir Kristínar í mikilli hættu þegar snjór stíflaði púströr

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Kristín Hafsteinsdóttir greindi frá því á Facebook síðu sinni að eins árs dóttir hennar hafi verið hætt komin í gær.
Kristín Hafsteinsdóttir greindi frá því á Facebook síðu sinni að eins árs dóttir hennar hafi verið hætt komin í gær. Vísir/Anton Brink
„Í dag hefði Lovísa auðveldlega getað dáið!“ Þannig hefst Facebook færsla Kristínar Hafsteinsdóttur. Þar segir hún frá því að eins árs gömul dóttir hennar hafi verið hætt komin í gær á meðan maðurinn hennar mokaði frá bílnum.

„Maðurinn minn var að fara með krakkana út í bíl svo hann gæti sótt mig í vinnuna. Hann setur Lovísu í bílstólinn og startar bílnum á meðan strákurinn okkar er úti með honum að moka frá bílnum,“ skrifar Kristín.

Barnið hafi farið að gráta svo að maður Kristínar dreif sig að moka og leit svo inn í bíl.

„Hún er grafkyrr í bílstólnum og með lokuð augun svo hann heldur að hún sé sofnuð. Þegar hann opnar bílhurðina til þess að hleypa stráknum inn í bílinn kemur á móti honum útblásturslykt frá bílnum.“

Kristín skrifar að snjórinn hafi lokað fyrir púströr bílsins svo að útblásturinn hafi borist inn í bílinn.

„Hann drífur sig að Lovísu þar sem hún er orðin grá og föl í framan. Rífur hana úr bílstólnum og blæs framan í hana þar til hún rankar við sér. Hún er í góðu lagi en passið ykkur á þessu!“

„Þetta getur verið stórhættulegt og ég hvet foreldra til þess að skilja börnin sín aldrei ein eftir inni í bíl sem er í gangi, þótt það sé aðeins í stutta stund,“ segir Kristín í samtali við fréttastofu RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×