Erlent

Þáði aðeins um tíu þúsund krónur fyrir að myrða Kim Jong-nam

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Hin indónesíska Siti Aisyah er talin hafa ráðið Kim Jong-Nam af dögum en yfirvöld í Norður-Kóreu eru grunuð um að standa að baki árásinni.
Hin indónesíska Siti Aisyah er talin hafa ráðið Kim Jong-Nam af dögum en yfirvöld í Norður-Kóreu eru grunuð um að standa að baki árásinni. vísir/epa
Siti Aisyah, indónesísk kona sem er í haldi vegna morðsins á Kim Jong-nam, þáði að eigin sögn aðeins jafngildi um tíu þúsund íslenskra króna fyrir verknaðinn. BBC greinir frá.

Kim Jong-nam var bróðir einræðisherra Norður-Kóreu, Kim Jong-un. Atlaga var gerð að honum í komusal alþjóðaflugvallarins í Kuala Lumpur af tveimur konum sem komu aftan að honum og skvettu framan í hann eitri.

Í kjölfarið leitaði Kim sér læknisaðstoðar á flugvellinum og lést síðar í sjúkrabifreið á leiðinni á spítala.

Aisyah er 25 ára gömul en henni var að eigin sögn talin trú um að hún væri aðeins að taka þátt í sjónvarpshrekk og segist ekki hafa haft hugmynd um að efnið sem um ræddi væri eitur. Henni var öllu heldur tjáð að um barnaolíu væri að ræða. 

Kim Jong-nam, hálfbróðir Kim Jong-un.vísir/getty
Malasíska lögreglan greindi frá því í gær að VX-taugaeitur hafi verið notað var til þess að ráða Kim Jong-nam af dögum. Eitrið er afar sterkt og er flokkað sem gjöreyðingarvopn af Sameinuðu þjóðunum.

Norður-kóresk yfirvöld eru grunuð um verknaðinn þrátt fyrir að þau neiti staðfastlega aðild.

Auk Aisyah eru tveir í haldi grunaðir um aðild að ódæðinu, annars vegar víetnömsk kona og hins vegar karlmaður frá Norður-Kóreu.

Víetnamska konan, Doan Thi Huong, er 29 ára gömul og ber einnig fyrir sig að hún hafi framið verknaðinn í þeirri trú að hún væri þátttakandi í sjónvarpshrekk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×