Erlent

Milo Yiannopoulos hættur sem ritstjóri Breitbart eftir umdeild ummæli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Milo Yiannopoulos
Milo Yiannopoulos Visir/Getty
Milo Yiannopoulos, maðurinn sem sagður hefur verið umdeildasti maður internetsins, hefur sagt upp störfum sem ritstjóri Breitbart News, íhaldssömu bandarísku vefriti sem hefur meðal annars verið gagnrýnt fyrir kynþáttahatur og kvenfyrirlitningu. CNN greinir frá.

Yiannopoulos hefur verið á milli tannanna á fólki undanfarin misseri eftir að myndband fór í dreifingu á netinu þar sem hann virðist leggja blessun sína yfir barnaníð.

Í yfirlýsingu frá honum segir hann að hann geti ekki látið óheppilegt orðaval sitt koma í veg fyrir „það mikilvægas starf“ sem unnið sé hjá Breitbart News, því hafi hann ákveðið að segja af sér.

Í myndbandi sem birt var á dögunum segir Yiannopolous að sambönd milli ungra drengja og eldri manna geti verið „mótandi sambönd“ þar sem „þessir eldri menn hjálpa þessum ungu drengjum að uppgötva hverjir þeir eru.“

Í kjölfar ummælanna hefur verið hætt við útgáfu ævisögu hans og hætt hefur verið við ræðu hans á ráðstefnu í Bandaríkjunum þar sem Donald Trump bandaríkjaforseti verður gestur.

Breitbart News hefur meðal annars tengsl við ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Stephen K. Bannon, helsti ráðgjafi Trump, var einn forsprakka vefritsins og undir stjórn hans varð síðan þekkt fyrir íhaldssemi og mikla hægri stefnu.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×