Erlent

Dómari segir af sér eftir að hafa spurt konu hvers vegna hún gæti ekki haldið hnjám sínum saman

Birgir Olgeirsson skrifar
Kanadíska dómararáðið sagði hegðun hans niðurlægjandi og dónalega og kallaði eftir afsögn hans.
Kanadíska dómararáðið sagði hegðun hans niðurlægjandi og dónalega og kallaði eftir afsögn hans.
Kanadískur dómari sem spurði konu hvers vegna hún gæti ekki haldið hnjám sínum saman hefur sagt af sér.

Dómarinn heitir Robin Camp en hann sagði af sér eftir að kanadíska dómararáðið hafði kallað eftir því í umsögn sinni um ummæli hans.

Í umsögn ráðsins kom fram að hann hefði grafið undan trausti almennings á kanadíska dómskerfið með þessum ummælum sínum.

Konan sem fékk þessa spurningu frá Camp kært nauðgun en ummælin lét dómarinn falla við réttarhöld árið 2014. Hann var harðlega gagnrýndur í kjölfarið en reyndi að halda í dómarastöðu sína. Hann fór fyrir dómararáð Kanada þar sem hann sagðist meðal annars hafa sótt fræðslu og að hann hefði beðist afsökunar á ummælunum.

Það hafði lítil áhrif á dómararáðið sem sagði hegðun Camps hafa verið yfirlætislega, niðurlægjandi og dónalega.

Konan sem um ræðir var nítján ára gömul þegar réttað var í máli hennar árið 2014. Auk þess að spyrja hana þessarar spurningar þá sagði hann einnig við réttarhöldin að sársauki og kynlíf færu stundum saman.

Réttað hefur verið tvisvar yfir manninum sem sakaður var um nauðgunina en hann var sýknaður í bæði skiptin, nú síðast í janúar síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×