Innlent

Fær bætur eftir að hafa verið sakaður um íkveikju

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn sætti ítrekað nálgunarbanni gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni og börnum.
Maðurinn sætti ítrekað nálgunarbanni gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni og börnum. Vísir/GVA
Íslenska ríkinu hefur verið gert að greiða karlmanni 700 þúsund krónur í miskabætur vegna handtöku og rannsóknaraðgerða í framhaldi af henni í mars 2015. Manninum var haldið á lögreglustöð í meira en hálfan sólarhring áður en tekin var af honum framburðarskýrsla.

Manninum var gefið að sök að hafa kveikt í bíl fyrrverandi eiginkonu sinnar hinn 31. mars 2015. Hann var handtekinn í framhaldi af því og færður í fangaklefa, en við aðalmeðferð málsins kvaðst maðurinn hafa verið í klefanum á nærbuxunum einum fata, eftir að lögregla lagði hald á fatnað hans.

Um hádegisbil var manninum ekið á lögreglustöðina í Grafarholti þar sem hann var yfirheyrður, og sagðist maðurinn hafa verið færður berfættur í lögreglubílinn. Neitaði maðurinn sök og var enga áverka að finna á andliti hans eða höndum, né sviðin hár á andliti, samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu. Málið var í kjölfarið látið niður falla.

Kastljós fjallaði ítarlega um mál mannsins og eiginkonu hans í ágúst 2015, en þar kom fram að maðurinn hefði margoft brotið nálgunarbönn gagnvart konunni og börnum þeirra. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í dag sætti maðurinn nálgunarbanni gagnvart þeim í sex mánuði árið 2013 og aftur árið 2014.

Lögreglustjóri ákvað í tvígang árið 2015, eftir meinta íkveikju, að maðurinn skyldi sæta nálgunarbanni gagnvart konunni og börnunum. Ákvörðunin var í fyrra skiptið felld úr gildi.

Í niðurstöðu dómsins segir að íslenska ríkið hafi ekki reitt neitt fram sem geti skýrt hvers vegna manninum hafi verið haldið á lögreglustöð í meira en hálfan sólarhring áður en tekin var af honum skýrsla. Sé það þar af leiðandi niðurstaða dómsins að framkvæmd lögreglunnar hafi verið án nægilegs tilefnis og að með þessu hafi lögreglan brotið gegn skyldu sinni til að gæta meðalhófs við svo íþyngjandi aðgerð, líkt og það er orðað í dómnum.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×