Fótbolti

Fyrstu landsliðsmörkin tryggðu fyrsta sigurinn á Algarve-mótinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Málfríður skoraði bæði mörk Íslands í sigrinum á Kína.
Málfríður skoraði bæði mörk Íslands í sigrinum á Kína. vísir/getty
Ísland bar sigurorð af Kína, 2-1, í leik um 9. sætið á Al­garve-mótinu í gær. Þetta var fyrsti sigur íslenska liðsins á mótinu en það tapaði einum leik og gerði tvö jafntefli.

Málfríður Erna Sigurðardóttir skoraði bæði mörk Íslands í leiknum. Þetta voru fyrstu landsliðsmörk Málfríðar, í þrítugasta landsleik hennar.

Bæði mörkin komu eftir hornspyrnur. Málfríður kom Íslandi í 1-0 á 8. mínútu með skoti úr þröngu færi eftir hornspyrnu Thelma Bjarkar Einarsdóttur og skalla Guðmundu Brynju Óladóttur. Wang Shanshan jafnaði metin á 36. mínútu en Málfríður skoraði annað mark sitt á 48. mínútu eftir hornspyrnu Margrétar Láru Viðarsdóttur.

„Sigurinn nærir alltaf. Það er alveg sama hvenær hann kemur. Leikmenn voru klókir að teygja sig eftir sigrinum,“ sagði landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson í samtali við Fréttablaðið. Hann var að vonum ánægður með hvernig íslenska liðið nýtti föstu leikatriðin í leiknum í gær.

„Kínverjarnir eru reyndar mjög öflugir í loftinu en við vorum búin að undirbúa okkur vel og eitt af markmiðum leiksins var að skora eftir fast leikatriði. Það kom ekkert annað til greina en skora og við gerðum tvö,“ sagði Freyr sem var glaður fyrir hönd Málfríðar.

„Ég veit alveg hvað Fríða getur gert í föstum leikatriðum, þannig að þetta kom ekkert eins og þruma úr heiðskíru lofti.“

Freyr kvaðst að mestu ánægður með frammistöðu Íslands í leiknum í gær, fyrir utan kaflann um það leyti sem Kínverjar jöfnuðu metin. Markið kom eftir slæm og sjaldséð mistök Glódísar Perlu Viggósdóttur.

„Ég var ánægður með nokkra sóknarkafla. Við vorum að spila á móti liði sem spilar 4-4-2 og ætluðum okkur að reyna að spila á milli línanna hjá þeim. Ég var hins vegar mjög óánægður með kaflann í kringum markið sem við fengum á okkur,“ sagði Freyr.

„Þar vorum við að reyna barnalega hluti sem okkur var refsað fyrir. En leikmenn unnu sig út úr því og sýndu vilja með því að ráðast á andstæðinginn og ná aftur tökum á leiknum. Svo fannst mér gott að sjá hugarfarið að vilja gera allt til að vinna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×