Erlent

Launamunur kynjanna 23 prósent á heimsvísu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Konur í Bangladess halda upp á daginn í dag.
Konur í Bangladess halda upp á daginn í dag. vísir/getty
UN Women beina í dag sjónum sínum að atvinnu kvenna og efnahagslegri valdeflingu en í dag, 8. mars, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Í tilkynningu frá UN Women kemur fram að í dag fagni samtökin „þeim árangri sem hefur náðst en minnum okkur á að enn er langt í land í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.“

Í tilkynningunni kemur fram að af þeim 770 milljónum manna sem búa við mikla fátækt í heiminum er meirihlutinn konur. Þá er launamunur kynjanna 23 prósent á heimsvísu og eru eldri konur innan Evrópusambandsins 37 prósent líklegri til að lifa við fátækt heldur en eldri karlmenn á svæðinu. Að auki eyða konur rúmlega helmingi meiri tíma í umönnunarstörf en karlar um allan heim.

„Phumzile Mlambo Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women flutti ræðu í tilefni dagsins þar sem hún ítrekar mikilvægi þess að ýta undir efnahagslega valdeflingu kvenna um allan heim. Það sé m.a. gert með því að uppræta skaðlega siði líkt og þvinguð hjónabönd, limlestingar á kynfærum stúkna og allar aðrar gerðir ofbeldis gegn konum og stelpum.

 

Að sama skapi hvetur hún heimsbyggðina til að hvetja stelpur strax á unga aldri að láta sig dreyma stóra drauma um framtíðina. „Við þurfum að byrja strax heima og á fyrstu metrum skólagöngunnar að hvetja stúlkur. Þar reynir á foreldra, námsskrár, skólakerfið auk þess sem brjóta þarf markvisst upp allar þær úreltu staðalímyndir um kynin sem birtast okkur í auglýsingum, fjölmiðlum, tónlistarmyndböndum og sjónvarpsþáttum sem dæmi,“ segir hún í ávarpi sínu og beinir sjónum að mikilvægi efnahagslegrar valdeflingar kvenna um allan heim.

 

„Um allan heim eyða konur og stúlkur of miklum tíma við ólaunuð umönnunar – og heimilisstörf eða rúmlega helmingi lengri tíma en karlar og strákar. Í mörgum tilfellum er þessi ójafna verkaskipting á kostnað skólagöngu stúlkna og kvenna, launaðra starfa, íþróttaiðkunar og annarrar félagslegrar þátttöku í samfélaginu. Þessi norm samfélaga heimsins segja fólki hvaða það eigi að gera og hvað ekki, þessu þarf að breyta.

 

UN Women vill byggja upp nýjan og breyttan atvinnuheim fyrir konur þar sem konur hljóta sömu tækifæri og karlmenn. Stúlkur eiga að geta valið sér starfsframa og þær þarf að hvetja til að velja óhefðbundnar leiðir í starfsvali. Efnahagsleg valdefling kvenna gerir ekki eingöngu konum og stúlkum kleift að blómstra heldur samfélaginu í heild sinni. Við lifum á breyttum tímum atvinnulífs og vinnumarkaða, á tímum nýsköpunar, alþjóðvæðingar og fólksflutninga. En á sama tíma stendur heimsbyggðin í frammi fyrir loftslagsbreytingum, gríðarlegum fólksflótta og neyð, auknu vinnumansali og efnahagslegu kynjamisrétti. Það er allra hagur að skapa samfélög þar sem fullkomið kynjajafnrétti ríkir. Þar sem konur eru efnahagslegar valdefldar og veitt jöfn tækifæri á við karlmenn er samfélagið heilbrigt og sjálfbært. Með því að útrýma kynbundnum launamun og dreifa þeirri ábyrgð sem felst í að sinna ólaunuðum umönnunarstörfum, sem yfirleitt falla í skaut kvenna og stúlkna, og fjárfesta strax í dag í þeim mannauði sem konur búa yfir - er talið að verga landsframleiðsla ríkja heimsins muni aukast um 12 trilljónir bandaríkjadollara fyrir árið 2025,“ segir framkvæmdastýra UN Women,“ að því er fram kemur í tilkynningu UN Women.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×