Innlent

Hreyfum okkur mest allra Evrópuþjóða

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Íslendingar eru duglegastir þjóða Evrópu við að hreyfa sig.
Íslendingar eru duglegastir þjóða Evrópu við að hreyfa sig. vísir/ernir
Ísland er efst þjóða Evrópu í samantekt hagstofu ESB, Eurostat, yfir hlutfall íbúa sem hreyfa sig að lágmarki í 150 mínútur á viku hverri utan vinnutíma. Yfir sextíu prósent landsmanna ná því marki. Það er tvöfalt hærra en meðaltal þjóða Evrópu.

Ráðlögð lágmarkshreyfing á viku, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO), er 150 mínútur utan vinnu. Í öðru sæti eru Norðmenn en 57 prósent íbúa eru yfir markinu. Finnar eru efstir þjóða ESB en 55 prósent þeirra hreyfa sig í 150 mínútur eða meira á viku.

Á hinum endanum má finna Rúmena, Búlgara og Tyrki en í öllum löndunum eru færri en einn af hverjum tíu sem ná 150 mínútna hreyfingu á viku eða meira. Þá hreyfa 28 prósent Íslendinga sig ekkert utan vinnutíma og er hlutfallið hið sjötta lægsta af þeim löndum sem úttektin nær til.

Úr niðurstöðunum má lesa að fleiri karlar en konur nái þröskuldi WHO og að langskólagengnir hreyfi sig meira utan vinnu heldur en þeir sem eru minna menntaðir.

Tölurnar byggja á tveggja ára gömlum gögnum frá 26 aðildarþjóðum ESB auk gagna frá Íslandi, Noregi og Tyrklandi. Miðað var við hreyfingu utan vinnutíma en hins vegar voru hjólreiðar til vinnu taldar með. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×