Erlent

Vilja að Obama verði næsti Frakklandsforseti

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Slagorð Obama úr kosningabaráttu hans hafa verið yfirfærð yfir á frönsku. Plakötin eru að finna víða um Frakkland.
Slagorð Obama úr kosningabaráttu hans hafa verið yfirfærð yfir á frönsku. Plakötin eru að finna víða um Frakkland. vísir/afp
Tæplega fimmtíu þúsund manns hafa skorað á Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, að bjóða sig fram í frönsku forsetakosningunum í vor. Ástæðan er að Frökkum hugnast ekki þeir frambjóðendur sem þegar hafa gefið kost á sér.

Plakötum með myndum af Obama með yfirskriftinni „Já, við getum“ eða „Oui on peut“ hefur verið komið fyrir víða um Frakkland, en um er að ræða slagorð úr kosningabaráttu Obama árið 2008. Auk þess er myndin í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem fólk er hvatt til þess að rita nafn sitt á undirskriftalistann.

„Við áttuðum okkur á því að Obama væri á lausu eftir seinna kjörtímabil hans, þannig að við hugsuðum, af hverju gæti hann ekki orðið næsti forseti Frakklands,“ segir einn skipuleggjendanna í samtali við AFP-fréttastofuna.

Það sem setur strik í reikninginn er að Barack Obama er ekki með franska ríkisborgararétt. Skipuleggjendur segjast hins vegar vera með lausnina á því – þeir ætli sér að safna milljón undirskriftum og afhenda þær franska þinginu, sem þá geti skoðað möguleikann á að veita Bandaríkjaforsetanum fyrrverandi ríkisborgararétt.

Aðrir skipuleggjendur segja að fyrst og fremst sé um brandara að ræða. Brandarinn sé þó ekki merkingalaus því ljóst sé að kjósendur séu ekki að samsama sig þeim sem lýst hafa yfir framboði.

Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að óháði frambjóðandinn Emmanuel Macron og Marine Le Pen, frambjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, njóti mests fylgis. Francois Fillon, frambjóðandi franska repúblikana, á nú undir högg að sækja vegna ásakana um spillingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×