Erlent

Hermenn dreifðu nektarmyndum af hermönnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá æfingu landgönguliða í Taílandi.
Frá æfingu landgönguliða í Taílandi. Vísir/Getty
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og rannsóknardeild flotans (NCIS) rannsaka nú dreifingu landgönguliða á nektarmyndum af núverandi og fyrrverandi landgönguliðum af kvenkyni. Myndunum var deilt á Google Drive svæði sem var birt á Facebook hóp sem heitir Marines United, eða landgönguliðar sameinaðir.

Hópnum hefur nú verið lokað og Google Drive skjalinu einnig. Um 30 þúsund manns voru í hópnum.

Talið er að myndirnar telji hundruðum eða þúsundum. Ekki var eingöngu um nektarmyndir að ræða, heldur einnig myndir af fáklæddum konum og öðrum í einkennisbúningum. Myndunum fylgdu svo margskonar kynferðisleg og niðrandi ummæli.

Forsvarsmaður samtakanna The War Horse benti yfirvöldum á myndirnar þann 30. janúar. Facebook síðum þeirra sem höfðu verið að dreifa myndum var einnig eytt, eftir að hernaðaryfirvöld höfðu samband við starfsmenn Facebook.

Fyrrverandi ástmenn meðal annars undir grun

Minnst einn landgönguliði hefur þar að auki verið rekinn úr hernum. Sá sem upprunalega deildi slóðinni að Google Drive svæðinu hefur einnig verið rekinn úr starfi sínu sem verktaki fyrir stjórnvöld í Bandaríkjunum.

Talsmaður landgönguliðsins segir við CNN að hann geti ekki tjáð sig um málið, þar sem rannsóknir séu yfirstandandi. Hins vegar sagði hann ljóst að athæfi sem þetta bryti gegn siðum og reglum landgönguliðsins. Hann þakkaði forsvarsmanni War Horse fyrir að benda yfirvöldum á þetta.

Yfirmaður landgönguliðsins, hershöfðinginn Robert B. Neller, slær á sömu strengi og segir þetta ótækt meðal landgönguliða.

Blaðamaður War Horse ræddi við fimm konur sem hafa verið nafngreindar, en tvær þeirra telja að fyrrverandi ástmenn hafi dreift myndunum. Aðrar segjast óttast að þær hafi orðið fyrir tölvuárásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×