Erlent

Var gripinn fyrir ölvunarakstur og viðurkenndi 25 ára gamalt morð

Atli Ísleifsson skrifar
Maður í Þýskalandi var á dögunum gripinn fyrir ölvunarakstur í tvígang sama kvöld. Lögreglumönnunum sem afskipti höfðu af Þjóðvernunum var hins vegar mjög brugðið þegar þeim tókst óvænt að leysa 25 ára gamalt morðmál þar sem maðurinn viðurkenndi upp úr þurru að hafa orðið konu að bana.

Þjóðverjinn, sem er 52 ára að aldri og hefur ekki áður hlotið dóm, kvaðst hafa myrt konu í Bonn árið 1991.

Maðurinn sagðist hafa haft „ofbeldisfullar morðhugsanir“ á þeim tíma þegar hann var 26 ára nemi. Sagði hann að hann hafi í nóvember 1991 bankað upp á hjá konunni, ruðst inn á heimili hennar, handjárnað og stungið hana margsinnis með hníf þegar hún byrjaði að kalla eftir hjálp.

Lögregla og saksóknarar hafa nú hafið rannsókn á þessu óleysta morðmáli á nýjan leik, en lögreglumenn telja frásögn mannsins trúanlega. Þeir rannsaka nú einnig möguleikann á hvort hann hafi framið önnur brot.

Ekki er að fullu ljóst af hverju maðurinn ákvað að viðurkenna brotið en hann sagðist hafa misst vonina eftir að hafa gert sér grein fyrir því að ölvunaraksturinn myndi leiða til uppsagnar hans hjá vinnuveitenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×