Innlent

Formaður sauðfjárbænda sammála um að fækka þurfi fé

Sveinn Arnarsson skrifar
35 prósent innanlandsframleiðslu fer til útflutnings. Verð á erlenda markaði er mjög lágt.
35 prósent innanlandsframleiðslu fer til útflutnings. Verð á erlenda markaði er mjög lágt. vísir/stefán
Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssambands sauðfjárbænda, segir stöðuna í sauðfjárrækt mjög erfiða. Hann tekur í einu og öllu undir orð framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands um mikilvægi þess að fækka fé í landinu náist ekki að selja afurðir.

„Eins og staðan er núna þá eru skilyrði til sauðfjárræktar mjög erfið. Gengi krónunnar er það sterkt í dag að það hefur áhrif á allar útflutningsgreinar,“ segir Þórarinn Ingi.

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, sagði í viðtali við Fréttablaðið síðastliðinn mánudag að núverandi ástand gæti ekki staðið lengi án þess að fækka þyrfti fé. „Ég er í stuttu máli sammála hverju einasta orði framkvæmdastjórans. Ef við getum ekki selt afurðina sem við erum að framleiða þá hlýtur eitthvað að láta undan,“ bætir Þórarinn Ingi við.

Steinþór Skúlason forstjóri SS
Á Íslandi eru framleidd rúmlega tíu þúsund tonn af lambakjöti ár hvert. Um 6.500 tonn eru nýtt hér á innanlandsmarkaði og því eru það rúm 3.500 tonn sem flutt eru úr landi. Hins vegar er afurðaverð þannig að síðustu þrjá mánuði ársins greiddu afurðastöðvar um 200 milljónir króna með útflutningnum ef marka má orð Björns Víkings Björnssonar, forstjóra Fjallalambs.

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir reiknisdæmið einfalt þegar skoðaðar eru opinberar tölur um framleiðslu, neyslu innanlands og stöðu krónunnar. „Það er ekki langt síðan betra verð fékkst fyrir afurðir erlendis en hér heima þegar krónan var veik. Núna hins vegar er staðan grafalvarleg.“ Þórarinn Ingi spáir verðfalli ef sú staða kæmi upp.

„Staðan er þung nú þegar. Yrði sú raunin í næstu sláturtíð yrði erfið staða grafalvarleg.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×