Erlent

Evrópuþingið vill að Bandaríkjamenn þurfi vegabréfaáritanir

Þingmenn á Evrópuþinginu ályktuðu í dag að Bandaríkjamenn ættu að þurfa vegabréfaáritanir til að ferðast til Evrópu. Með þessu vilja þingmennirnir bregðast við því að bandarísk stjórnvöld undanskilji borgara fimm Evrópulanda frá því að ferðast til Bandaríkjanna án vegabréfaáritunar.

Ályktunin felur í sér að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stöðvi frjálsar ferðir Bandaríkjamanna til Evrópu innan tveggja mánaða.

Framkvæmdastjórnin hefur enn ekki gripið til aðgerða þrátt fyrir að Bandaríkin heimili ekki borgurum Búlgaríu, Króatíu, Kýpur, Póllands og Rúmeníu að koma til landsins án vegabréfaáritunar eins og aðrir þegnar Evrópusambandsríkja geta gert. Bandaríkjamenn geta hins vegar, enn sem komið er, ferðast til allra Evrópusambandsríkja án vegabréfaáritunar.

Samkvæmt reglum ESB hefði framkvæmdastjórnin átt að binda enda á ferðir Bandaríkjamanna til Evrópu án vegabréfaáritunar innan tveggja ára eftir að Bandaríkjunum var tilkynnt um mótaðgerðirnar. Tilkynning þess efnis var send í apríl árið 2014. Með ályktuninni í dag reyna Evrópuþingmenn því að setja þrýsting á framkvæmdastjórnina um að koma málinu á hreyfingu.

Embættismaður framkvæmdastjórnarinnar segir við Reuters-fréttastofuna að viðræður standi enn yfir við bandarísk stjórnvöld um að þau veiti öllum ESB-borgurum undanþágu frá vegabréfaáritunum.

Framkvæmdastjórnin hefur varað við því að með því að fella niður undanþágu bandarískra borgara á vegabréfaáritunum gæti viðskiptahagsmunum, ferðamennsku og evrópskum hagkerfum verið stefnt í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×