Erlent

Svíar taka aftur upp herskyldu

Samúel Karl Ólason skrifar
Um er að ræða bæði konur og karla, en áður fyrr átti herskyldan eingöngu við karlmenn.
Um er að ræða bæði konur og karla, en áður fyrr átti herskyldan eingöngu við karlmenn. Vísir/AFP
Yfirvöld í Svíþjóð hafa ákveðið að taka aftur upp herskyldu. Hún var lögð niður árið 2010 en takmörkuð útgáfa hennar verður tekin aftur upp á næsta ári. Einstaklingar sem fæddir eru á árunum 1999 og 2000 munu á næstunni fá upplýsingar um ákvörðunina og hvað hún þýðir. Um er að ræða bæði konur og karla, en áður fyrr átti herskyldan eingöngu við karlmenn.

Þeir sem hafa áhuga á að ganga til liðs við herinn verður frjálst að gera það, en stefnan er að um fjögur þúsund konur og menn bætist við herinn á næsta ári. Þeir verða valdir úr um þrettán þúsund manna hópi.

Peter Hultqvist segir að ef her Svía eigi að vera klár í slaginn verði að fylla upp í sjálfboðaliðakerfið með takmarkaðri herskyldu. Skortur hefur verið á sjálfboðaliðum og Svíar hafa áhyggjur af auknum heræfingum og umsvifum Rússa við Eystrasaltshafið. Í samtali við SVT Nyheter, sænska ríkisútvarpið, segir hann að muni ástandið versna verði mögulegt að fleiri verði kallaðir til.

Marinetta Radebo, talskona varnarmálaráðuneytisins, segir BBC að nýliðarnir muni vera í hernum í níu til tólf mánuði. Markmiðið sé að hvetja þá til að verða atvinnuhermenn eða bjóða sig fram í þjóðvarðliðið.

Mikill meirihluti var um breytingarnar á sænska þinginu. TheLocal vísar einnig til rannsóknar frá því í fyrra sem sýndi fram á að nærri því þrír af hverjum fjórum voru sammála því að taka aftur upp herskylduna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×