Erlent

Mögulega lögsótt fyrir að dreifa myndum af aftöku ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Marine Le Pen.
Marine Le Pen. Vísir/AFP
Marine Le Pen, Evrópuþingmaður, forsetaframbjóðandi og leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, verður mögulega lögsótt fyrir að hafa dreift myndum frá aftökum Íslamska ríkisins á Twitter. Hún er til rannsóknar í Frakklandi fyrir að hafa dreift þremur grafískum myndum frá ISIS-liðum á Twitter, þar á meðal mynd af aftöku blaðamannsins James Foley.

Foreldrar Foley sökuðu Le Pen um að nota myndina af líki sonar þeirra í pólitíska þágu hennar. 

Hingað til hefur verið ómögulegt að lögsækja hana vegna friðhelgar hennar sem þingmaður á Evrópuþinginu. BBC hefur eftir forseta þingsins að „stór meirihluti“ hafi samþykkt tillöguna.

Sjálf segir hún málið anga af pólitík og að „kerfið“ sé að reyna að halda henni niðri og draga úr gengi forsetaframboðs hennar.

Ákvörðun þingsins snýr þó einungis að þessu tiltekna máli, en Le Pen er einnig til rannsóknar fyrir að hafa misnotað opinbert fé Evrópuþingsins til að greiða lífverði sínum um fimm milljónir króna árið 2011. Hún hafi gert það undir því yfirskini að hann væri aðstoðarmaður hennar. Hún mun einnig hafa beitt sömu leið til að borga aðstoðarkonu sinni í Frakklandi umtalsvert af peningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×