Erlent

Mótmælendur í Kaupmannahöfn köstuðu grjóti í lögreglu

Atli Ísleifsson skrifar
Frá aðgerðum lögreglu í tengslum við mótmælin í Kaupmannahöfn árið 2007.
Frá aðgerðum lögreglu í tengslum við mótmælin í Kaupmannahöfn árið 2007. Vísir/EPA
Um þúsund manns mótmæltu á götum Kaupmannahafnar í kvöld í tilefni af því að tíu ár eru liðin frá því að Ungdomshuset á Nørrebro var rifið.

Grímuklæddir mótmælendur köstuðu margir grjóti og öðru lauslegu að ílögreglu og brutu rúður í verslunum við Nørrebrogade. Lögregla þurfti í nokkrum tilfellum að beita bareflum gegn mótmælendum sem margir voru með svarta borða þar sem á stóð „Ekkert gleymt – ekkert fyrirgefið“.

Danskir fjölmiðlar segja að mótmælin hafi byrjað síðdegis á Vor Frue Plads og héldu mótmælendur svo út á Nørrebrogade og að Nørrebros Runddel.

Hópur mótmælenda safnaðist svo saman við Jagtvej 69 þar sem Ungdómshúsið stóð áður og kom fyrir ruslagámum sem kveikt var í.

Um klukkan 21 að staðartíma höfðu mótmælendur svo safnast saman við nýja Ungdomshuset við Dortheavej. Nokkuð dró úr mótmælunum þegar leið á kvöldið og hafði lögregla þá handtekið milli átta og ellefu manns, meðal annars eftir að hafa ruðst inn í Ungdómshúsið.

Ungdómshúsið við Jagtvej var samkomustaður fyrir ólíka hópa ungmenna en því var lokað og rýmt fyrsta dag marsmánaðar 2007. Húsið var rifið nokkrum dögum síðar og fylgdu því mikil mótmæli og óeirðir, þar sem lögregla handtók rúmlega 700 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×