Freyr Alexandersson segir að Sandra María Jessen hafi verið send á sjúkrahús í myndatöku vegna meiðslanna sem hún varð fyrir í leik Íslands og Noregs á Algarve-mótinu í kvöld.
Sandra María lenti í samstuði við Ingvild Isaksen eftir rúmar 20 mínútur og var borin af velli.
„Hún fór upp á spítala í myndatökur til að útiloka bæði brot og slit á lið- eða krossböndum. Við vitum ekkert eins og staðan er núna,“ sagði Freyr í samtali við Vísi í kvöld.
„Ég sá þetta þokkalega og frá mér séð leit þetta ekki vel út og hún var kvalin. Við vonum bara það besta,“ bætti Freyr við.
Nánar verður rætt við landsliðsþjálfarann í Fréttablaðinu á morgun.
