Hugmyndin með miðasölu á leik Íslands og Frakklands á Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi síðastliðið sumar var að reyna að bæta fjárhag Sónar Reykjavíkur og greiða niður skuldir, sagði Björn Steinbekk, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sónar, fyrir dómi í gær.
Gam Management ráðgjöf ehf., dótturfélag fjárfestingarfélagsins GAMMA, stefndi Birni Steinbekk og Sónar Reykjavík ehf. vegna miðasölumálsins svokallaða sem vakti mikla athygli í sumar. Fjöldi fólks hafði keypt miða af Birni en fékk þá aldrei afhenta. Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun.
Keypti tíu miða en fékk engan
Gísli Hauksson, fyrrverandi forstjóri GAMMA, keypti tíu miða af Birni fyrir alls 686 þúsund krónur, en Gísli var á meðal þeirra sem aldrei fékk miðana í hendurnar. Þá krafðist Gísli endurgreiðslu en hafði þó ekki erindi sem erfiði.
Björn fullyrti fyrir dómi að bróðurpartur allra seldra miða, tæplega 500 talsins, hafi þegar verið endurgreiddur, eða allt að 85 prósent þeirra. Hann sagðist hafa millifært níu milljónir króna af reikningi Sónar Reykjavíkur inn á eigin reikning einum degi eftir að miðasalan fór úrskeiðis, til þess að tryggja það að allir fengju endurgreitt. Eftir það hafi lögmannsstofan Forum tekið við og séð um að endurgreiða milljónirnar níu.
Aðspurður sagði Björn að stjórn félagsins Sónar Reykjavík hafi ákveðið í sameiningu að festa kaup á miðum á leiki á Evrópumótinu. Félagið hafi staðið illa fjárhagslega og að stjórnarmeðlimir hafi talið félagið geta hagnast á miðasölunni. Þannig gæti félagið jafnframt greitt niður útistandandi skuld við tónlistarhúsið Hörpu. Hafi því verið tekin ákvörðun um að kaupa alls 456 miða, en ekki tókst að afhenda nema 389 þeirra.
Getur ómögulega ábyrgst skuldir Sónar persónulega
Björn bar við aðildarskorti við meðferð málsins í dag og sagði miðasöluna hafa alfarið verið á ábyrgð félagsins, sem nú er komið í þrot. Því geti hann ómögulega ábyrgst skuldir félagsins persónulega.
Spurður hvers vegna hann hafi þá ekki auglýst miðana á vefsíðu Sónar, frekar en eigin síðu, sagði hann það ekki hafa verið viðeigandi. Sónar sé tónlistarhátíð og því hafi hann sem framkvæmdastjóri hátíðarinnar tekið að sér að auglýsa miðana til sölu. Þá hafi öll samskipti við viðskiptavini farið fram í gegnum netfang Sónar Reykjavíkur ásamt því sem þeir hafi millifært inn á reikning Sónar. „Þetta kom allt skýrt fram,“ sagði Björn.
Erna Björk Häsler, stærsti eigandi Sónar Reykjavíkur ehf, og eiginkona Björns, staðfesti fyrir dómi að stjórn félagsins hafi ákveðið í sameiningu að standa að sölu miða á landsleikinn. Björn hafi ekki staðið sjálfur að miðasölunni heldur verið í forsvari fyrir félagið.
Eldar Ástþórsson, sem var stjórnarmaður í félaginu á þeim tíma sem málið kom upp, sagðist hvorki hafa vitað til þess að slíkar hugmyndir hafi verið uppi né að þessi ákvörðun hafi verið tekin af stjórninni. Eldar sagði sig úr stjórn félagsins eftir að málið kom upp. „Mér mislíkaði þessir viðskiptahættir,“ sagði hann fyrir dómi.
Sem fyrr segir fór Sónar Reykjavík í þrot í nóvember síðastliðnum. Björn sagði af sér sem framkvæmdastjóri félagsins í júlí, nokkrum dögum eftir atburðina í París. Hann sagðist hins vegar fyrir dómi hafa tekið virkan þátt í starfseminni þar sem hann vildi ganga úr skugga um að allir fengju endurgreitt.
„Eftiráskýringar Björns Steinbekk“
Haukur Örn Birgisson, lögmaður Gam Manangement, sagði skýringar Björns Steinbekk þess efnis að hann sé ekki ábyrgur í málinu fyrst og fremst eftiráskýringar sem standist ekki skoðun, enda hafi Björn ítrekað talað um ábyrgð sína, bæði fyrir dómi og í fjölmiðlum.
Björn hafi sjálfur auglýst miðana til sölu á eigin Facebook-síðu, undir eigin nafni, auk þess sem Sónar Reykjavík hafi aldrei verið nefnt á nafn sem seljandi miðanna. „Það taldi sig enginn hafa verið að kaupa miðana af Sónar, leyfi ég mér að fullyrða,“ sagði Haukur í málflutningi sínum. Þá sé ákveðinn tvískinnungur fólginn í því að Björn hafi sjálfur heitið því að endurgreiða miðana en firri sig nú allri ábyrgð. Benti Haukur á að Björn hafi aldrei vísað á Sónar Reykjavík í öllum þeim fjölda viðtala sem hann hafi farið í í tengslum við málið.
Falskar fréttir um Björn
Þorsteinn Einarsson, lögmaður Björns, sagði fráleitt að verið sé að benda á fréttir úr fjölmiðlum. Sjálfur dragi hann í efa „þessar endursagnir fjölmiðla sem hafi enga þýðingu“ og sagði að um væri að ræða „falskar fréttir“. Þá sagði hann að fyrst og fremst sé verið að gera kröfu á rangan aðila – Björn Steinbekk – og að það sæti furðu að Gísli Hauksson, sem sé forstjóri umsvifamesta fjármálafyrirtækis hér á landi, hafi ekki áttað sig á við hvern hann væri að eiga viðskipti við.
„Ég held að forstjóri GAMMA á Íslandi megi vænta þess að hans viðsemjandi sé sá sem móttekur kaup á miðunum [...] Hann veit það sjálfur þessi aðili sem kaupir miðana að framkvæmdastjóri þess félags sem selur miðana ber enga ábyrgð,“ sagði Þorsteinn. „Það kemur á óvart að þeir hafi ekki áttað sig á því að þeir væru að eiga viðskipti við sónar. Það segir í tölvupóstinum að þeir sem vilji tryggja sér þessa þjónustu þurfi að leggja inn á Sónar Reykjavík. Svo einfalt er þetta,“ sagði Þorsteinn jafnframt og benti á að kvittun vegna viðskiptanna hafi verið gefin út af Sónar.
Segist hafa orðið af fimm milljónum
Líkt og fram hefur komið vakti miðasölumálið mikla athygli, enda urðu mörg hundruð manns af miðum á einn stærsta leik Íslandssögunnar; leik Íslands og Frakklands í átta liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu sem fór fram í París í júlí í fyrra.
Á meðal þeirra sem keyptu miða á leikinn er Margrét Katrín Guðnadóttir og fjölskylda, en það gerði hún í gegnum Kristján Atla Baldursson. Kristján keypti alls 100 miða af Birni, fyrir samtals 5,2 milljónir króna, en segist í samtali við Vísi ekki hafa fengið þá endurgreidda. Hann hafi þó sjálfur endurgreitt öllum sem áttu við hann viðskipti, meðal annars Margréti. Kristján vinnur að því að ná samkomulagi við Björn, en hyggst að öðrum kosti leita réttar síns fyrir dómstólum.
Miðasalan átti að koma Sónar Reykjavík upp úr skuldasúpunni
Tengdar fréttir
Sónar Festival slítur samstarfssamningi við Sónar Reykjavík ehf
Sónar Festival og móðurfélag þess, Advanced Music SL, hafa slitið samstarfssamningi við fyrirtækið Sónar Reykjavík ehf sem Björn Steinbekk hefur verið í forsvari fyrir.
Miðafár, grátandi menn og misheppnuð flug
Eftirspurn eftir ferðum til Frakklands og miða á leiki Íslands var mikil. Margir reyndu að anna eftirspurninni með misgóðum árangri.
Móðurfélag Sónar sver af sér tengsl við viðskiptahætti Björns Steinbekk
Áfram stefnt að því að halda Sónar Reykjavík á næsta ári.
Mál á hendur Birni Steinbekk hrannast upp
Miðasölumaðurinn alræmdi hefur nú verið kærður til lögreglu.
Björn Steinbekk rýfur þögnina eftir þrjá mánuði: „Ætlaði ekki að vera gaurinn sem klúðraði þessu“
Björn segir að skilyrði fyrir því að allar endurgreiðslukröfur verði greiddar sé að honum takist að sækja bætur til þeirra sem sviku hann.