Innlent

Gagn­rýni rann­sóknar­lög­reglu­manns Lands­banka­mönnum framandi

Jakob Bjarnar skrifar
Upplýsingafulltrúi bankans segir það því miður svo að ýmislegt í nýrri grein Gísla B. Árnasonar um ný debetkort bankans sé rangt.
Upplýsingafulltrúi bankans segir það því miður svo að ýmislegt í nýrri grein Gísla B. Árnasonar um ný debetkort bankans sé rangt.
„Það er ekki allt rétt sem kemur fram í þessari grein, því miður,“ segir Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans.

Lottóvinningur fyrir óprúttna aðila

Grein sem rannsóknarlögreglumaðurinn Gísli B. Árnason birti á Fréttablaðinu og á Vísi í morgun hefur vakið mikla athygli. Gísli greinir frá megnri óánægju sinni með ný greiðslukort Landsbankans og telur þau mikinn happafeng fyrir fjársvikara. En Gísli hefur rannsakað fjársvikamál tengd greiðslukortum.

„Þetta kort er því mikill happafengur, eiginlega lottóvinningur fyrir óprúttna aðila sem svífast einskis til að komast yfir peninga annarra. Í samtali við starfsmann Landsbankans spurði ég hann hvort ekki væri hægt að slökkva á þessum snertilausa möguleika því mér hugnaðist ekki að hægt væri að borga með kortinu án þess að slá inn lykilnúmerið. Svaraði hann að það væri ekki hægt,“ segir Gísli meðal annars í grein sinni. Hann greinir frá því að hann hafi sem r rannsóknarlögreglumaður rannsakað fjölmörg sakamál er varða fjársvik út af glötuðum eða stolnum greiðslukortum; „... tel ég nokkuð öruggt að með því að ekki þurfi lengur að slá inn lykilnúmer muni glæpir sem tengjast þessum nýju greiðslukortum aukast til muna. Þá hefur komið í ljós að með hverri færslu út af þessu nýja debetkorti þarf korthafinn að greiða 17 króna þjónustugjald til Landsbankans, sem er töluverð hækkun frá því sem var með eldri debetkortin. Ég hef því ákveðið að taka nýja debetkort Landsbankans ekki í notkun af þeirri einföldu ástæðu að öryggi þess er engan veginn nægjanlegt.“

Hætta á tjóni hefur ekki aukist

Rúnar bendir á í svari við fyrirspurn Vísis að nýju debetkortin séu jafnörugg og færslugjaldið hið sama, en í grein Gísla er því haldið fram að það hafi hækkað.

„Sömu reglur gilda um ný debetkort Landsbankans og um eldri tegundir korta, þ.m.t. ef kortinu er stolið og það misnotað. Hætta á tjóni korthafa hefur því ekki aukist með nýjum debetkortum. Færslugjöldin eru einnig hin sömu og þau hækkuðu ekki vegna innleiðingu nýrra korta.

Fjárhæðin sem greidd er með snertilausum hætti getur ekki farið yfir 5.000 krónur í hvert skipti og uppsöfnuð fjárhæð án þess að PIN-númer sé slegið inn getur ekki orðið hærri en 10.500 krónur. Til að auka öryggi þarf af og til að að setja kortið í posann, slá inn PIN-númer kortsins og staðfesta úttekt, þó svo verið sé að kaupa fyrir lægri fjárhæð en 5.000 kr,“ segir Rúnar jafnframt.

Landsbankamenn vilja árétta að eftir sem áður þurfi menn að gæta vel að kortum sínum og korthöfum ber að láta loka þeim ef þau glatast eða þeim er stolið. „Sé snertilausu korti Landsbankans stolið og takist þjófnum að taka út af því fé með sviksamlegum hætti, án þess að PIN-númer sé notað, ber korthafi ekki ábyrgð á tjóninu.“

Færslugjald ekki hækkað

Af útskýringum Rúnars verður ekki betur séð en rannsóknarlögreglumaðurinn vaði villu og svíma í grein sinni.

„Nýju debetkortin frá VISA fylgja nýjustu öryggisstöðlum og hafa kort af þessari gerð verið í notkun erlendis frá 2012. Um 200 milljón snertilaus kort hafa nú verið gefin út í Evrópu, samkvæmt upplýsingum frá VISA og um 20% af öllum VISA-færslum eru nú snertilausar og hefur notkun snertilausra korta farið vaxandi.

Það er sömuleiðis mikilvægt að gæta vel að PIN-númerum, enda eru dæmi um að þjófar fylgist með þegar PIN-númer er slegið inn og reyni síðan að stela kortinu.

Þá bendum við á að færslugjald debetkorta Landsbankans er 17 kr., lægra en hjá öðrum bönkum. Gjaldið hækkaði  úr 16 kr. í árslok 2015 og tengdist sú hækkun ekki innleiðingu nýju debetkortanna. Sama færslugjald gildir fyrir öll debetkort Landsbankans, hvort sem þau eru notuð með því að setja í posa og slá inn PIN-númer, í netverslunum eða með því að greiða snertilaust.“

Rúnar vill jafnframt vekja athygli á sérstakri upplýsingasíðu um nýju debetkortin. „Þar er ýmsum algengum spurningum vegna debetkortanna svarað.“


Tengdar fréttir

Er nýtt debetkort lottó­- vinningur fjársvikarans?

Bankinn minn Landsbankinn sendi mér á dögunum nýtt snertilaust debetkort sem á að leysa af hólmi eldri gerð debetkorta. Eftir að hafa kynnt mér virkni þessa nýja korts í samtali við starfsmenn Landsbankans og með því að lesa upplýsingar um það á heimasíðu Landsbankans, er augljóst að verið er að draga verulega úr því öryggi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×