Innlent

Heldur kröfu um tólf ára fangelsi til streitu í máli Annþórs og Barkar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Annþór og Börkur voru sýknaðir í málinu í Héraðsdómi Suðurlands.
Annþór og Börkur voru sýknaðir í málinu í Héraðsdómi Suðurlands.
Ríkissaksóknari fer fram á tólf ára fangelsi yfir þeim Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni sem sakaðir eru um að hafa veitt fanga áverka á Litla-Hrauni árið 2012 sem leiddu til dauða hans. Annþór og Börkur voru sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands í mars í fyrra þar sem of mikill vafi var talinn á því að þeir bæru ábyrgð á dauða samfanga síns.

Málið er til meðferðar í Hæstarétti í dag þar sem ákæruvaldið hefur fjörutíu mínútur til að koma sínum skoðunum á framfæri en verjandi hvors sakbornings þrjátíu mínútur. Ríkissaksóknari fór fram á tólf ára fangelsisdóm yfir Annþóri og Berki í héraði og heldur þeirri kröfu til streitu í Hæstarétti.

Börkur Birgisson var viðstaddur meðferðina í Hæstarétti í morgun.Vísir/GAG
Málið var afar umfangsmikið og við rannsókn málsins var meðal annars gerð eftirlíking af klefanum á Litla-Hrauni auk þess sem dómskvaddir matsmenn voru fengnir erlendis frá. Var kostnaður við málið því mikill og sömuleiðis málsvarnarkostnaður sem nam um þrjátíu milljónum króna sem féll á ríkið. 

Alla jafna eru dómar í Hæstarétti kveðnir upp innan þriggja vikna frá málflutningi og innan fjögurra vikna í héraði. Dómsuppkvaðning í héraði var þó átta vikum eftir aðalmeðferðina svo koma verður í ljós hve langan tíma dómarar í Hæstarétti gefa sér til að kveða upp dóm sinn.

Annþór og Börkur afplána nú sjö og sex ára fangelsisdóma sem féllu haustið 2013 fyrir grófa líkamsárás í janúar 2012. Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.
 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×