Þar kemur einnig fram að losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hefur aukist um 26% frá 1990 til 2015 og var um 4,6 milljón tonn af CO2-ígildum árið 2014. Á sama tíma hefur losun dregist saman um 24% samtals í 28 ríkjum ESB. Nýbirt spá í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands bendir til að losun hér á landi geti aukist um 53-99% til 2030. Sé tekið tillit til kolefnisbindingar með landgræðslu og skógrækt er aukningin 33-79%. „Líklega eru fá eða engin dæmi um jafn mikla fyrirsjáanlega aukningu í losun til 2030 hjá öðrum þróuðum ríkjum,“ segir orðrétt í skýrslunni.

Ísland hefur fullgilt Parísarsamninginn og sent inn landsákvarðað framlag með markmið til 2030. Í því segir að Ísland ætli sér að taka þátt í samevrópsku markmiði um minnkun losunar um 40% til 2030 miðað við 1990. Fyrir Alþingi liggur nú þingsályktunartillaga um aðgerðaráætlun í orkuskiptum.
Með tillögunni er stefnt að því að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum.
Stefnt er að því að hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum verði 10% árið 2020 og 40% árið 2030, en þetta hlutfall er nú um 6%.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.