Skoðun

Hvar er húsnæðisstuðningurinn?

Ellen Calmon skrifar

Sú breyting sem gerð var á húsnæðisbótakerfinu um síðustu áramót hefur komið illa við fólk sem þarf að reiða sig á stuðning til að geta komið þaki yfir höfuð sér. Þar er átt við bæði örorkulífeyrisþega sem eiga eðlilega kröfu um mannsæmandi framfærslu og ellilífeyrisþega sem flestir telja að eigi heimtingu á áhyggjulausu ævikvöldi.



Samkvæmt þeim breytingum sem gerðar voru hafa húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur tekið við af húsaleigubótum og sérstökum húsaleigubótum. Með breytingunni teljast bætur almannatrygginga til tekna við útreikning á húsnæðisstuðningi hvers konar, utan vaxtabóta, en svo var ekki áður. Allar skattskyldar tekjur eru teknar með, tekjumörk eru afar lág og skerðingar fyrir sérstakan húsnæðisstuðning miklar þannig að fjárhagslegur stuðningur af þessu tagi lækkar hjá þorra lífeyrisþega sem eru í leiguhúsnæði. Þess má geta að hann lækkar umtalsvert hjá sumum, jafnvel þannig að hann fellur í raun alveg niður.



Ef horft er til neysluviðmiðs velferðarráðuneytisins eru heildarútgjöld hjá einstaklingi án húsnæðiskostnaðar rúmar 222 þúsund krónur á mánuði. Örorkulífeyrisþegi sem býr einn og er ekki með neinar eða lágar aðrar tekjur fær rúmar 229 þúsund krónur útborgaðar á mánuði en það er um 7 þúsund krónum hærri upphæð en neysluviðmiðið án húsnæðiskostnaðar. Þegar húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur eru tekin með í reikninginn þá hefur sá hinn sami rúmar 50 þúsund krónur til að greiða húsaleigu. Fyrir þá upphæð er afskaplega hæpið að fá þak yfir höfuðið.



Markmiðið með breyttu kerfi var að lækka greiðslubyrði vegna húsnæðis hjá þeim sem eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað vegna lágra tekna, þungrar framfærslubyrði og félagslegra aðstæðna. Með þessari breytingu sé ég ekki hvar þennan húsnæðisstuðning er að finna. Þess vegna hvet ég nýja ríkisstjórn til að laga það sem þarfnast lagfæringar án tafar.

 



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×