Erlent

Fundu meira en 250 hauskúpur í fjöldagröf í Mexíkó

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
„Veracruz er ein stór fjöldagröf. Það er stærsta fjöldagröfin í Mexíkó og jafnvel í heiminum.“
„Veracruz er ein stór fjöldagröf. Það er stærsta fjöldagröfin í Mexíkó og jafnvel í heiminum.“ vísir/getty
Yfirvöld í Mexíkó hafa fundið meira en 250 hauskúpur í því sem virðist vera leynileg fjöldagröf í úthverfi borgarinnar Veracruz á vesturströnd landsins. Saksóknarinn Jorge Wincklear segir að líklegast séu í gröfinni lík fólks sem myrt var af eiturlyfjagengjum fyrir nokkrum árum.

„Í mörg ár hvarf fólk vegna þess að það var tekið og myrt af þessum gengjum en andvaraleysi yfirvalda varð til þess að ekkert var að gert,“ er haft eftir Wincklear á vef Guardian.

Ekki hefur verið upplýst hvenær hauskúpurnar fundust eða hver fann þær en hópar ættingja fólks sem hefur sporlaust í gegnum árin hafa staðið fyrir uppgreftri á ýmsum stöðum sem og bent yfirvöldum hvar grafir sé mögulega að finna.

 

Hauskúpurnar og önnur bein fundust á skógi vöxnu svæði, kallað Colinas de Santa Fe, þar sem aktívistar hafa undanfarin misseri verið að kanna hvort að lík leynist mögulega þar. Að sögn saksóknarans á eftir að grafa upp meira á svæðinu og eru allar líkur á því að fleiri bein og/eða lík finnist þar.

„Ég get ekki ímyndað mér hversu margir eru grafnir þarna,“ segir Wincklear en bendir á að í ríkinu Veracruz, sem samnefnd borg er í, séu 2400 manns á lista yfir horfið fólk sem enn er ófundið.

„Veracruz er ein stór fjöldagröf. Það er stærsta fjöldagröfin í Mexíkó og jafnvel í heiminum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×