Erlent

Stella setti mannlíf úr skorðum í Bandaríkjunum

Heimir Már Pétursson skrifar
Mannlíf fór víða úr skorðum í norðausturhluta Bandaríkjanna í dag vegna mikillar snjókomu sem fylgdi storminum Stellu sem gekk þar yfir í dag. Þúsundum flugferða var aflýst, meðal annars til og frá Íslandi. Minna varð úr veðrinu í New York en spár gerðu ráð fyrir.

Neyðarástandi var lýst yfir í fimm ríkjum Bandaríkjanna vegna veðursins, skólum var víða lokað og umferð fór úr skorðum. Hátt í átta þúsund flugferðum til áfangastaða í norðaustur hluta Bandaríkjanna var aflýst, meðal annars fimm ferðum frá WOW Air og Icelandair frá Íslandi til Boston og Newark flugvallar í New Jersey við New York. Flugi frá þessum stöðum til Íslands á morgun hefur einnig verið aflýst. 

Borgarstjórinn í New York hvatti íbúa til að vera ekki á ferð nema nauðsyn bæri til í dag en minna varð úr veðrinu þar en spár gerðu ráð fyrir. Það snjóaði hins vegar mjög mikið í Boston og víða annars staðar.

Donald Trump forseti Bandaríkjanna ræddi veðrið á fyrsta formlega  fundi ríkisstjórnar hans í Hvíta húsinu í dag. Hann sagði alla viðbragðsaðila tilbúna og reyndist sannspár í vantrausti sínu á veðurspána, alla vega hvað New York varðar. En Angela Merkel kanslari Þýskalands var væntanleg í heimsókn til forsetans í dag.

Og í öllum norðausturríkjunum hefur verið gefin út viðvörun vegna vetrarstorms. Við skulum vona að hann verði ekki eins slæmur og sumir spá. Yfirleitt er svo ekki. Við Merkel kanslari höfum talað saman og hún mun fresta ferð sinni fram á föstudag. Hún kemur á föstudaginn og við hlökkum til. Þetta verður góð heimsókn,“ sagði Donald Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×