Erlent

Hátt í átta þúsund flugferðum frestað vegna Stellu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það er mikill snjór í norðausturhluta Bandaríkjanna
Það er mikill snjór í norðausturhluta Bandaríkjanna Vísir/AFP
Hríðarbylurinn Stella er nú að skella á norðausturhluta Bandaríkjanna. Reiknað er með að hríðarbylnum fylgi mikil snjókoma og að vindhraði geti orðið allt að 30 metrar á sekúndu. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í fimm ríkjum og hátt í átta þúsund flugferðum verið frestað.

Yfirvöld í New York, New Jersey, Pennsylvaníu, Maryland og Virginíu hafa varað íbúa í ríkjunum við að ferðast á næstunni og gildir viðvörunin fram á kvöld. Starfsmönnum alríkisstjórnarinnar í Washington hefur verið gefið leyfi til þess að taka sér frí frá vinnu og þá hefur algjört ferðabann verið sett á í Connecticut.

Um 7,700 flugferðum hefur verið frestað og skólastarf í Boston, Baltimore, Philadelphia og New York liggur niðri.

Talið er að veðrið muni hafa áhrif á um 31 milljón manns og hefur snjóbylurinn nú þegar lamað samgöngur á svæðinu á milli Washington og Boston.

„Þetta verður mjög alvarlegur snjóbylur sem allir ættu að taka mjög alvarlega,“ sagði Bill de Blasio, borgarstjóri New York borgar. Reiknað er með í New York geti snjódýptin náð 30 sentimetrum.

Bæði Icelandair og WOW air hafa aflýst öllu sínu flugi til norðurstrandar Bandaríkjanna vegna Stellu, en það eru samtals tíu flug. Reiknað er með að veðrið muni ganga niður með kvöldinu

Veturinn hefur verið afar mildur í norðausturhluta Bandaríkjanna í ár, en síðastliðinn febrúar mældist sá hlýjasti á þeim slóðum frá árinu 1895.

Það er ekkert að gerast í fluginu.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×