Erlent

Reiði í Brasilíu eftir að fótboltalið gerði samning við leikmann myrti kærustuna sína

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bruno Fernandes de Souza
Bruno Fernandes de Souza vísir/afp
Mikillar reiði gætir nú í Brasilíu eftir að knattspyrnulið sem spilar í 2. deild þar í landi gerði tveggja ára samning við leikmann sem myrti kærustuna sína, Elizu Samudio, árið 2010.

Maðurinn, Bruno Fernandes de Souza, var dæmdur í 22 ára fangelsi fyrir morðið árið 2013. Hann losnaði hins vegar úr fangelsi í síðasta mánuði og í kjölfarið samdi hann við liðið Boa Esporte en Bruno, eins og hann er þekktur í Brasilíu spilar stöðu markvarðar.

Bæði fjölskylda konunnar sem hann myrti og hópar sem berjast gegn kynbundnu ofbeldi mótmæltu því að Bruno væri boðinn velkominn aftur í heim knattspyrnunnar með svo afgerandi hætti.

„Konur eru mjög reiðar sem og almenningur. Það er eins og hann hafi ekki hlotið dóm,“ skrifaði Djamila Ribeiro, vel þekktur stjórnmálaheimspekingur og femínisti í Brasilíu.

Þrjú fyrirtæki drógu stuðning sinn við Boa Esporte til baka eftir að liðið samdi við Bruno en margir fótboltaáhugamenn í landinu hafa hins vegar fagnað endurkomu hans á knattspyrnuvöllinn.

Málið kemur upp á tíma þar sem vaxandi áhyggjur eru af kvennamorðum og nauðgunum í Brasilíu. Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í liðinni viku vakti knattspyrnuliðið Cruzeiro einmitt athygli á þessu og voru leikmenn liðsins í treyjum með alls kyns tölfræði um kynbundið ofbeldi, meðal annars skilaboðum á borð við „Ein nauðgun á hverjum ellefu mínútum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×