Enski boltinn

Sjöunda sætið gæti gefið af sér Evrópuleiki næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verða ekkert nema topplið í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar í ár en það var ljóst eftir að Manchester City, Arsenal og Tottenham komust áfram í gegnum átta liða úrslitin um helgina.

Í kvöld bætast síðan annaðhvort Chelsea eða Manchester United í hópinn sem þýða að liðin fjögur í undanúrslitunum eru meðal sex efstu liða ensku úrvalsdeildarinnar.

Fjögur efstu liðin fara í Meistaradeildina á næstu leiktíð og fimmta sætið gefur síðan sæti í Evrópudeildinni. Liðin sem vinna enska bikarinn og enska deildabikarinn fá líka Evrópudeildarsæti.

Manchester United vann enska deildabikarinn á dögunum og er því öruggt með að minnsta kosti sæti í enska deildabikarnum.

Nú eru öll liðin sem eiga ennþá möguleika á því að vinna ensku bikarkeppnina meðal þeirra sex efstu. Það þýðir að nú er næsta öruggt að sjöunda sætið í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili gefi af sér Evrópuleiki næsta vetur. Sky Sports skoðaði stöðuna.

Everton er nú í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og það eru sjö stig í áttunda sætið þar sem West Bromwich Albion situr.

Liðin í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar fær Evrópudeildarsætið ef eitt af eftirtöldu gerist:

Ensku deildabikarmeistararnir (Man. United) verða meðal sex efstu liðanna

Ensku bikarmeistararnir verða meðal sex efstu liðanna

Leicester City vinnur ekki Meistaradeildina

Á ofantöldu sést að það eru miklar líkur á því að Evrópudeildarsætið endi á Goodison Park og að Liverpool gæti átt tvö Evrópulið næsta vetur.

Evrópudeildarsæti Everton gæti snert okkur Íslendinga því íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er aftur og aftur orðaður við Everton í enskum fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×