Erlent

"Sjakalinn“ aftur fyrir dóm vegna 40 ára gamallar sprengjuárásar

Kjartan Kjartansson skrifar
Ilich Ramírez Sánchez er betur þekktur sem "Sjakalinn“.
Ilich Ramírez Sánchez er betur þekktur sem "Sjakalinn“. Vísir/Samsett mynd
Réttað verður yfir „Sjakalanum Carlosi“, einum alræmdasta hryðjuverkamanni 20. aldarinnar, vegna fjörtuíu ára gamallar sprengjuárásar í París á morgun. Verði hann sakfelldur á hann yfir höfði sér þriðja lífstíðarfangelsisdóminn.

Ilich Ramírez Sánchez framdi fjölda hryðjuverka í Frakklandi á 8. og 9. áratug síðustu aldar í nafni frelsisbaráttu Palestínumanna og kommúnískrar byltingar.

Sjálfur var hann fæddur í Venesúela en palestínskir félagar hans nefndu hann Carlos. Fjölmiðlar gáfu honum viðurnefnið Sjakalinn í höfuðið á persónu í bókinni „Dagur Sjakalans“ eftir Frederick Forsyth sem síðar varð að samnefndri kvikmynd.

Ramírez, sem nú er 67 ára gamall, afplánar nú lífstíðardóm fyrir fjölda morða og árása. Hann var fyrst sakfelldur í Frakklandi fyrir tuttugu árum en hlaut frekari dóma árið 2011 og 2013.

Málið sem verður tekið fyrir dóm á morgun snýst um sprengjuárás sem gerð var í verslunarmiðstöð í Latínuhverfinu í París árið 1974. Þá var handsprengju varpað inn í veitingastað. Tveir létust og 34 særðust samkvæmt frétt The Guardian.

Að sögn AP-fréttastofunnar hefur málið dregist á langinn vegna þess dómstóll vísaði því upphaflega frá vegna skorts á sönnunargögnum. Það var tekið upp aftur þegar Ramírez var handtekinn árið 1994. Lögmenn hans hafa allar götur síðan sett fram kröfur á hverju stigi málsins sem hafa tafið framgang þess.

Sjálfur neitar Ramírez sök. Engu að síður birtist viðtal við mann að nafni Ramírez Sánchez í fréttablaði á arabísku sem gefið var út í Frakklandi fimm árum eftir árásina. Í því var haft eftir manninum að hann hefði varpað handsprengju inn í veitingastaðinn og nákvæm lýsing á árásinni og hvers vegna hún var gerð. Ramírez þrætir fyrir að hafa veitt viðtalið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×