Innlent

Guðni um forsetaframboðið: „Ekki endilega gott veganesti að hafa talað um Íslandssöguna eins og ég hafði stundum gert“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hélt hátíðarerindi við upphaf Hugvísindaþings í dag. Í erindi sínu, sem hafði yfirskriftina Þjóðin og fræðin. Nokkur orð um tilvistarvanda sagnfræðings sem varð forseti, lagði hann áherslu á að sagnfræðingar miðli sögu Íslendinga á mannamáli til almennings.

Hann sagði að á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu hafi verið gengi út frá því að sagnfræðingar ættu að hafa í heiðri málstað þjóðar sinnar. Síðar hafi orðið breyting á. Viðhorf sjálfstæðisbaráttunnar hafi vikið fyrir ólíkum hagsmunum stétta og einstaklinga. Allt hafi þetta gerst í takti við keimlíka þróun á vesturlöndunum.

„Inn í þetta umhverfi steig ég. Fyrst gerði ég landhelgismál og þorskastríð að sérsviði mínu. Þau átök voru framhald sjálfstæðisbaráttunnar í augum margra Íslendinga. Frækileg barátta þar sem við stoðum saman öll sem eitt. Sumir í fræðunum sperrtu eyrun þegar ég lét þarna til mín taka, voru ekki aðrir búnir að helga sér þetta svið? Var frá einhverju nýju að segja?“ sagði Guðni.

Í erindi sínu á söguþingi árið 2002 hafi hann til að mynda sagt:

„Hefur það langur tími liðið frá lokum þorskastríðanna að Íslendingar geti vegið þau og metið á sama hátt og menn hafa til dæmis verið að endurskoða sjálfstæðisbaráttuna? Baráttunni fyrir sjálfstæði Íslands er lokið sagði Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðiprófessor til dæmis um miðjan síðasta áratug. Hetjuljóminn sem einkenndi söguna á ekki lengur við enda má líka vitna í þau orð Guðmundar að frekari skrif um sjálfstæðisbaráttuna á næstu árum muni að öllum líkindum reka síðasta naglann í líkistu einingarsögunnar. Saga þorskastríðanna þarf á svipaðri endurskoðun að halda. Þetta greinarkorn er að því leyti einn lítill nagli í líkkistuna fyrir einingar- og hetjusögu þeirra. Þorskastríðunum er lokið.“

Gagnrýndur af valdhöfum

Seinna gerði hann að umfjöllunarefni sínu þann mun sem ríkti gjarnan á söguskoðun almennings og valdhafa annars vegar og fræðasamfélagsins hins vegar.

„Ég fjallaði líka um afstöðu ýmissa ráðamanna til fortíðar Íslendinga. Mér fannst þeir gjarnan sjá söguna í rómantísku ljósi, að þeir tækju sér til fyrirmyndar löngu gengna menn með löngu úreltar skoðanir í stað okkar hinna sem höfðum tekið söguna til gagngerðrar endurskoðunar, værum í fararbroddi fræðanna og nytum þá ferskra vinda að utan.“

Sú skoðun féll i kramið í fræðasamfélaginu en sumir valdhafar gagnrýndu „fræða fólk sem gerði lítið úr liðnum afrekum þjóðarinnar,“ eins og Guðni komst að orði. Hann segist þó hafa forherst í þeirri skoðun að sumir ráðamenn væru bara of rómantískir, að þeir hafi smíðað ímyndaða sögu einingar og hetjudáða til að sameina þjóðina.

„En svo fór ég í framboð. Í kosningabaráttunni fyrir forsetakjörið fyrrasumar kom í ljós að þorskastríðunum var ekki lokið. Ekki frekar en sjálfstæðisbaráttunni. Fyrir þann sem sækist eftir því að gegna embætti þjóðarleiðtoga er ekki endilega gott veganesti að hafa talað um Íslandssöguna eins og ég hafði stundum gert,“ sagði Guðni.

„Fólk sagði til dæmis að gert væri of lítið úr baráttu smáþjóðar fyrir afkomu sinni, liðsmenn landhelgisgæslunnar lítilsvirtir og meint sérfræðiþekking á liðinni tíð væri nú lítils virði. Eins og einn komst að orði:

„Maður sem hefur setið á skólabekk alla sína tíð og verið vafinn akademískri bómull er ekki líklegur til að vera í tengslum við fólkið í landinu né söguna, jafnvel þó hann kalli sig sagnfræðing,““ sagði Guðni og uppskar hlátur viðstaddra.

Náði ekki að ljúka við verkefni

Hann sagðist viss um að sjónarmið hans um þorskastríðið hefðu ekki orðið eins mikið bitbein í kosningabaráttunni hef hann hefði náð að ljúka því sem hann hefur lengi unnið að, að skrifa sögu þeirra í bókum sem væru ætlaðar almenningi.

„Þar hefði ég sagt hina dramatísku sögu. Hvernig varðskipsmenn máttu teljast heppnir að missa ekki lífið í atlögum breskra freyjugáta og dráttarbáta. Hvernig einn þeirra lést þegar hann var að gera við skemmdir að lokinni ásiglingu. En líka hvernig ekki ætti að flokka atganginn undir stríð samkvæmt skilgreiningum um eðli slíkra átaka. Enda myndu sumir skipherrar og aðrir liðsmenn landhelgisgæslunnar viðurkenna fyrstir manna að hefðu Bretar beitt sínum stríðstólum af öllu afli hefðu lyktir á miðunum orðið aðrar.“

Hann velti því upp hvort hægt væri að vera bæði gagnrýninn sagnfræðingur og þjóðarleiðtogi sem stuðli að samhug þjóðar.

„Í þessu fellst tilvistarvandi sagnfræðingsins sem varð forseti.“

Vildi miðla sögunni í sjónvarpi

Guðni sagði einnig frá því að áður en hann bauð sig fram hafi hann haft háleitar hugmyndir um gerð þátta um Íslandssöguna.

„Í rökstuðningi sagði ég meðal annars um þættina: Í þeim verða þrír meginþræðir. Í fyrsta lagi daglegt líf fólks úr öllum stéttum, á öllum aldri og af báðum kynjum. Í öðru lagi formgerð samfélagsins – lög, stjórnmálaþróun og helstu atburðir. Og þriðja – samskipti Íslendinga við umheiminn og framlag þeirra til heimsmenningar og mannkynssögu. Stuðst verður við nýjustu rannsóknir og haft að leiðarljósi að almenningur hafi bæði og gaman af þáttunum. Samhliða þeim verður gefin út bók um efni þeirra og til greina kemur að gefa einnig út margmiðlunarefni sem nota má til kennslu.“

Forsetinn lagði einnig áherslu í erindi sínu á að sagnfræðingar og hugvísindafólk miðli fræðum sínum til almennings.

„Ég hefði getað fjallað um nytsemi hugvísinda og nauðsyn í nútímasamfélagi. Um ýmsar hættur sem steðja að, óþarfa þöggunartilburði í nafni rétthyggju og hneykslunargirni sem þrengir að skoðanaskiptum. Sjónarmiðin hættulegu um alternative facts, eða sannlíki og efasemdir um gildi sérfræðiþekkingar, jafnvel andúð á henni. Ég ákvað hins vegar í dag að leggja áherslu á mikilvægi þess að rannsaka liðna tíð með opnum huga, en leggja svo áherslu á að miðla þeim fræðum til almennings. Því ef við gerum það ekki þá sjá bara einhverjir aðrir um það með sínu nefi,“ sagði forsetinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×