Erlent

Dreifing nektarmynda innan bandaríska hersins umfangsmeiri en fyrst var talið

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hermenn dreifðu og óskuðu eftir nektarmyndum af samstarfskonum sínum í bandaríska hernum.
Hermenn dreifðu og óskuðu eftir nektarmyndum af samstarfskonum sínum í bandaríska hernum. Vísir/Getty
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og rannsóknardeild flotans (NCIS) rannsaka nú dreifingu hermanna á nektarmyndum af samstarfskonum sínum. Dreifingin reyndist umfangsmeiri en talið var í fyrstu.

Talið var að dreifingin hefði einskorðast við Google Drive svæði og lokaðan Facebook hóp landgönguliða en nú hefur komið í ljós að hermenn dreifðu myndum af samstarfskonum sínum einnig á spjallborði og að hermenn úr fleiri deildum tækju þátt í athæfinu.

Algengt var að fyrst væru settar inn myndir af hermönnunum fullklæddum og svo óskað eftir nektarmyndum af þeim, sem voru kallaðar „sigrar.” Oft fylgdu persónuupplýsingar um konurnar, til dæmis nöfn þeirra og í hvaða herstöð þær störfuðu.

Sjá einnig: Hermenn dreifðu nektarmyndum af hermönnum

Facebook hópnum, sem hét Marines United, hafði um 30 þúsund meðlimi og hefur honum nú verið lokað. Spjallborðið er þó enn aðgengilegt á netinu og eru að minnsta kosti sex sambærilegir hópar starfræktir á Facebook samkvæmt CBS.

Fréttastofa BBC hefur fengið aðgang að spjallborðinu. Ein skilaboðin eru til dæmis á þann veg að því er velt upp hvort að fyrrverandi kærasti eins hermanns geti ekki útvegað nektarmyndir, því þau séu nýlega hætt saman.

Forsvarsmaður samtakanna The War Horse benti yfirvöldum á myndirnar þann 30. janúar. Facebook síðum þeirra sem höfðu verið að dreifa myndum var eytt eftir að hernaðaryfirvöld höfðu samband við starfsmenn Facebook.

Minnst einn landgönguliði hefur þar að auki verið rekinn úr hernum. Sá sem upprunalega deildi slóðinni að Google Drive svæðinu hefur einnig verið rekinn úr starfi sínu sem verktaki fyrir stjórnvöld í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×