Erlent

Forsíða Daily Mail sögð niðrandi: „1950 var að hringja og vill fyrirsögnina sína aftur“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þær Nicola Sturgeon og Theresa May prýða forsíðu Daily Mail í dag en margir eru ósáttir við framsetninguna.
Þær Nicola Sturgeon og Theresa May prýða forsíðu Daily Mail í dag en margir eru ósáttir við framsetninguna.
Forsíða eins stærsta dagblaðs Bretlands, Daily Mail, hefur verið harðlega gagnrýnd bæði af almenningi og stjórnmálamönnum eftir að hún var birt á Twitter í gær en blaðið kom út í morgun.

Á forsíðunni er mynd af þeim Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og Nicolu Sturgeon, formanni Skoska þjóðarflokksins, frá fundi þeirra í Glasgow í gær þar sem þær ræddu Brexit.

Báðar eru þær klæddar í jakka og pils og sjást leggir þeirra því vel á myndinna. Vísar fyrirsögn Daily Mail í það en hún gæti útlagst á íslensku eitthvað á þessa leið: „Gleymdu Brexit, hver er með bestu leggina?“

Inni í blaðinu er svo vísað í háa hæla kvennanna þar sem segir að þeir séu bestu vopnin þeirra og í pistli blaðamannsins Söruh Vine er Sturgeon sögð daðurslegri en May.

Um leið og forsíðan birtist á Twitter í gærkvöldi fóru háværar gagnrýnisraddir að heyrast á samfélagsmiðlum en forsíðan er sögð niðrandi, móðgandi og ýta undir kynjamisrétti.

Á meðal þeirra fyrstu til að gagnrýna forsíðuna voru þingkonur Verkamannaflokksins, þær Harriet Harman og Yvette Cooper. Þá tísti Ed Miliband, fyrrverandi formaður Verkamannaflokksins, eftirfarandi:

„1950 var að hringja og vill fyrirsögnina sína aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×