Innlent

Sló til aldraðs manns og reyndi að stela pósti

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Um fimmtíu mál komu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá hádegi í dag.
Um fimmtíu mál komu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá hádegi í dag. Vísir/Pjetur
Klukkan 17:17 barst lögreglu tilkynning um ölvaðan mann á Austurvelli. Hafði maðurinn verið að angra gesti og gangandi með ölvunarlátum og ofbeldisfullum tilburðum. Meðal annars hafði hann slegið til aldraðs manns en árásarþoli var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að.

Þá hafði maðurinn hrifsað póstsendingu úr höndum annars vegfaranda, sem hafði sótt pakka á pósthús, opnað póstsendinguna og stungið innihaldi hennar í úlpuvasa sinn.

„Með háttsemi sinni hefur maðurinn gerst sekur um gripdeild sbr. 245. gr. almennra hegningarlaga og fyrir að hnýsast í bréf sem hefur að geyma upplýsingar um einkamál annars manns sbr. 228. gr. almennra hegningarlaga en brot við því varðar sektum eða fangelsi allt að 1 ári,“ segir í dagbók lögreglu.

Eigandi póstsendingarinnar hafði náð að endurheimta hana frá manninum áður en lögreglu bar að garði. Maðurinn var í kjölfarið handtekinn og vistaður í fangageymslur þar til hann er viðræðuhæfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×