Erlent

Trump krefst atkvæðagreiðslu um Trumpcare í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump hefur nú látið smíða nýtt kerfi sem gengur undir nafninu The American Healthcare Act.
Donald Trump hefur nú látið smíða nýtt kerfi sem gengur undir nafninu The American Healthcare Act. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, krefst þess að þingmenn greiði atkvæði um hið nýja sjúkratryggingakerfi sem hann hefur kynnt ekki síðar en í dag. Þingmenn Repúblikana frestuðu atkvæðagreiðslu um frumvarpið á dögunum.

Nýja kerfinu er ætlað að koma í staðinn fyrir hið svokallaða Obamacare, sjúkratryggingakerfinu sem Obama, forveri Trump í embætti, kom á og Trump varði stórum hluta kosningabaráttu sinnar í að gagnrýna.

Trump hefur nú látið smíða nýtt kerfi sem gengur undir nafninu The American Healthcare Act. Til stóð að kjósa um málið á þingfundi í gær en andstaða nokkurra þingmanna Repúblikana kom í veg fyrir það.

Forsetinn er sagður hafa sett þingmönnunum úrslitakosti – að annað hvort yrði kosið um nýja frumvarpið í dag, ella sætu menn uppi með Obamacare.

Frestun atkvæðagreiðslunnar var nokkuð áfall fyrir Trump sem hafði staðhæft að hann hefði stuðning þingmanna í fulltrúadeild þingsins til að afgreiða málið svo öldungadeildin gæti tekið frumvarpið til meðferðar.

Óeining er hins vegar um málið innan raða Repúblikana þar sem sumum finnst gengið allt of langt í því að tryggja fólki heilbrigðisaðstoð á meðan öðrum finnst gengið of skammt.

Mesta andstaðan er þó á meðal íhaldsamra Repúblikana sem finnst nýja frumvarpið of líkt Obamacare.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×