Sóttvarnalæknir segir enga ástæðu til þess að flýta 18 mánaða bólusetningu gegn mislingum vegna þess eina tilfellis sem greindist hér á landi á dögunum. Þá segir hann að ekki sé ráðlagt að bólusetja börn yngri en 9 mánaða vegna þess að litlar líkur séu á að bóluefnið virki hjá svo ungum börnum.
Þetta kemur fram á heimasíðu landlæknis, en greint var frá því í gær að níu mánaða barn hefði greinst með mislinga hér á landi eftir ferðalag í Taílandi fyrr í mánuðnum. Sóttvarnalæknir segir einu ástæðurnar til að flýta 18 mánaða bólusetningunni eftirfarandi:
Börnum 9 mánaða eða eldri sem á undangengnum þremur dögum hafa umgengst einstakling með staðfesta mislinga.
Börnum 9 mánaða eða eldri sem líklega munu komast í tæri við mislinga t.d. vegna ferðalaga.
Ef fleiri mislingatilfelli fara að greinast hér á landi þá getur þurft að hefja bólusetningu hjá yngri börnum en það verður þá tilkynnt sérstaklega.
