Viðskipti innlent

Stefnt að opnun Brauðs & Co við hlið Kaffi Vest

Haraldur Guðmundsson skrifar
Gamla apótekið var áður rekið þar sem fjórða bakarí Brauð & Co gæti opnað.
Gamla apótekið var áður rekið þar sem fjórða bakarí Brauð & Co gæti opnað. Vísir/Stefán
Eigendur Brauðs & Co eiga í viðræðum um opnun á súrdeigsbakaríi við hlið Kaffihúss Vesturbæjar (Kaffi Vest) við Melhaga. Samkvæmt upplýsingum Markaðarins er gert ráð fyrir að bakaríið verði opnað í haust í verslunarplássi þar sem Gamla apótekið var áður til húsa.

Brauð & Co rekur nú bakarí við Frakkastíg 16 í miðborg Reykjavíkur og til stendur að opna tvö til viðbótar. Ágúst Einþórsson, bakari og stofnandi fyrirtækisins, vildi ekki tjá sig um það hvort til stæði að opna það fjórða við hlið kaffihússins. Húsnæðið þar er í eigu eigenda Kaffihúss Vesturbæjar og hafa viðræðurnar samkvæmt heimildum staðið yfir í nokkra mánuði.

Brauð & Co við Frakkastíg var opnað í mars 2016. Vísir/Stefán
Áform eigenda Brauðs & Co eru að nýtt bakarí verði opnað fyrir páska í húsnæði Gló í Fákafeni. Líkt og kom fram í frétt Morgunblaðsins verður þriðja bakaríið opnað í Mathöllinni á Hlemmi síðar í vor. Fyrsta bakaríið var opnað í mars í fyrra og því útlit fyrir að þau verði fjögur einungis einu og hálfu ári eftir opnun þess fyrsta.

Kaffi Vest er eitt af vinsælli kaffihúsum borgarinnar og í eigu þeirra Gísla Marteins Baldurssonar sjónvarpsmanns, Péturs Hafliða Marteinssonar, fyrrverandi knattspyrnumanns og eins eigenda Kex Hostels, Einars Arnar Ólafssonar, fjárfestis og fyrrverandi forstjóra Skeljungs, og Kristins Vilbergssonar, hluthafa í Kex Hosteli.

Brauð & Co er í eigu Ágústs Einþórssonar, Gló veitinga ehf. og Þóris Snæs Sigurjónssonar. Gló er aftur í eigu hjónanna og fjárfestanna Birgis Þórs Bieltvedt, Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur og hjónanna og stofnenda Gló, Sólveigar Eiríksdóttur og Elíasar Guðmundssonar. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×