Viðskipti innlent

Færa viðskiptin yfir í sparisjóðina eftir fréttir um Arion

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sparisjóðum hefur fækkað mikið á undanförnum árum og eru nú aðeins fjórir talsins.
Sparisjóðum hefur fækkað mikið á undanförnum árum og eru nú aðeins fjórir talsins. vísir/gva
„Það er óvenju mikil hreyfing núna. Við höfum verið svolítið mikið á haus og því ekki tekið saman tölurnar, en finnum greinilega að það er mikil hreyfing á fólki,“ segir Gerður Sigtryggsdóttir, sparissjóðsstjóri í Sparisjóði Suður-Þingeyinga.

Nokkurrar óánægju hefur gætt vegna fregna um kaup fjögurra fjárfesta á 30 prósenta hlut í Arion banka því ekki hefur verið upplýst um raunverulega eigendur, en Arion banka er skylt að upplýsa hverjir standa að banki kaupunum í þessari viku.

Vilja færa viðskipti sín annað

Í ljósi þessa hefur umræða verið um að fólk hyggist flytja viðskipti sín yfir til sparisjóðanna, sem nú eru fjórir talsins, og allir staðsettir á landsbyggðinni.

Kristinn Hrafnsson, blaðamaður og fyrrverandi talsmaður Wikileaks, upplýsti í gær um að hann ætli að færa viðskipti sín annað.

Þá veltir Stefán Pálsson sagnfræðingur því fyrir sér að snúa aftur í sparisjóðinn eftir að hafa verið í viðskiptum við Arion banka, þar áður Kaupþing og þar áður Búnaðarbankann, frá átján ára aldri. Í ummælum við þræði Kristins og Stefáns má merkja nokkurn áhuga á því að flytja viðskipti sín til sparisjóðanna.

Félagsráðgjafinn og stjórnmálakonan Björk Vilhelmsdóttir hefur sömuleiðis í hyggju að segja skilið við Búnaðarbankann, nú Arion banka, eftir að hafa verið í viðskiptum við hann frá unga aldri. 

Gerður, sem hefur aðsetur í útibúi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga á Laugum, segir fjölmargar fyrirspurnir hafa borist síðustu daga, bæði símleiðis og í gegnum tölvupóst. Öllu færri hafi komið í afgreiðsluna, enda komi fyrirspurnirnar alls staðar að af landinu.

Aukningin virðist þó ekki mælanleg í öðrum sparisjóðum, en sparisjóðsstjórar hinna þriggju bankanna segjast ekki hafa fundið fyrir miklum vexti undanfarna daga – en að vöxturinn hafi verið nokkuð jafn á síðustu árum. Þeir segjast hins vegar allir fagna frekari viðskiptum.

Gerður Sigtryggsdóttir segir starfsfólk bankans á haus þessa dagana, en tekur fram að um sé að ræða viðbótarverkefni sem hún sé afar þakklát fyrir.
Keyptu hlut í Arion fyrir tæplega 50 milljarða

Greint var frá því um helgina að Goldman Sachs, ásamt þremur alþjóðlegum fjárfestingarsjóðum, hefðu keypt 30 prósenta hlut í Arion banka af Kaupþingi eignarhaldsfélagi fyrir samtals 48,8 milljarða króna.

Í kjölfar þessa hafa margir kallað eftir upplýsingum um hverjir standa að baki þessum fyrirtækjum. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði á Alþingi að það sé algjörlega óviðunandi fyrir almenning að fá ekki þessar upplýsingar, og sagðist hafa haft samband við forstjóra Fjármálaeftirlitsins vegna málsins.

Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri FME, sagði svo í samtali við RÚV í gær að Arion banka væri skylt að greina frá raunverulegum eigendum innan fjögurra daga.

Sparisjóðum hefur fækkað mikið á síðustu árum og eru nú aðeins fjórir talsins. Það eru Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Sparisjóður Austurlands, Sparisjóður Strandamanna og Sparisjóður Höfðhverfinga. Sparisjóðirnir voru yfir tuttugu talsins um síðustu áramót.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×