Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að íslenskir tipparar hafi mokgrætt á leik Fylkis og Fram í 2. flokki í knattspyrnu karla. Höfðu tipparar upplýsingar um liðsskipan sem veðbankar höfðu ekki.
„Spurningin snýst um hvers vegna erlendu fyrirtækin bjóða upp á þessa leiki ef þau eru að tapa á þeim. Það er enginn í rekstri til að tapa,“ segir Pétur. Hann segir veðbankana líta á tapið sem markaðskostnað. Þá segir hann að rannsóknir Daníels Ólafssonar, prófessors við HÍ, sýni fram á orsakasamhengi þess að vinna stórt í byrjun og þróa með sér spilafíkn.

Málþing um hættuna af hagræðingu úrslita fer fram í HR klukkan 12 í dag. Arnar Þór Jónsson, lektor við lagadeild HR og umsjónarmaður málþingsins, segir veðmál orðin praktískt vandamál. „Þetta er farið að ógna heilbrigði íþróttanna. Menn hafa áhyggjur af þessu,“ segir hann.
Arnar bendir á að freistingar fyrir leikmenn hafi aukist með tilkomu veðmála um jaðarþætti á borð við innköst. „Þeir gætu sagt við sjálfa sig að þeir ráði engu um úrslitin þótt þeir sparki boltanum út af.“
Arnar Þór segir enn fremur að þetta hljóti að hrista allan grundvöll íþrótta í heiminum.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu