Tónlist

Hratt ris hins hvíta Iverson

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Post Malone skipti næstum yfir í rokkið enda lærði hann að spila á gítar í tölvuleiknum Guitar Hero.
Post Malone skipti næstum yfir í rokkið enda lærði hann að spila á gítar í tölvuleiknum Guitar Hero. NORDICPHOTOS/AFP

Júlí 2015 – White Iverson skekur heiminn

Það eru einungis tæp tvö ár síðan Post Malone, þá algjörlega óþekktur, setti myndband við lag sitt White Iverson á YouTube þar sem það halaði inn áhorfum og er með yfir 250 milljón spilanir í dag.

Ágúst 2015 – Fær plötusamning eftir 10 mínútur

Aðein mánuði eftir að Post Malone vakti athygli fyrir White Iverson var plötusamningur við Republic Records kominn í hús hjá drengnum. Republic Records er með slatta af stórum nöfnum á sínum snærum, en fyrirtækið er undirdeild Universal.

Poppkóngurinn Justin Bieber er góðvinur og lærifaðir Post Malone.NORDICPHOTOS/GETTY

Mars 2016 – Blessaður af konungi poppsins

Í mars 2016 tilkynnti poppgoðið Justin Bieber að Post Malone myndi ferðast með sér á Norður-Ameríkulegg Purpose-tónleikaferðalagsins. Justin og Post Malone eru víst góðir vinir, en Bieber er árinu eldri en Post Malone. Það sem var kannski helst að frétta af þessu ferðalagi var ljósmynd þar sem Post Malone virtist vera að kyrkja Justin en um fíflagang var víst að ræða.

Maí 2016 – Lofað upp í ermina

Mixteipið August 26th kom út í maí í fyrra – titill þess vísaði til útgáfudags fyrstu plötu Post Malone sem átti að koma út, nema hvað, 26. ágúst.

Júní 2016 – Fyrsta sinn í sjónvarpi

Post Malone kom fyrst fram í sjónvarpi sumarið 2016 þar sem hann flutti smellinn sinn Go Flex í þætti Jimmys Kimmel.

Metro Boomin er meðal þeirra pródúsera sem hafa varðað veg Post Malone á topp poppísjakans.NORDICPHOTOS/GETTY

Júní 2016 – Misskilningurinn mikli

Í sama mánuði var það gefið í skyn að Post Malone ætti að vera í Fresh­men-hefti rapptímaritsins XXL, en það þykir talsverður gæðastimpill. Blaðið gefur árlega út svokallaðan Freshmen-lista yfir þá ungu rappara sem talið er að muni verða næstu stórstjörnur rappheimsins. Hinsvegar varð ekkert úr því að Post Malone prýddi forsíðu þessa ágæta tímarits en það var vegna einhvers misskilnings á milli ritstjórnar XXL og útgáfufyrirtækis Post Malone sem hafði gefið það út að Post Malone ætlaði að setja hiphop-tónlist á hilluna og fókusera á einhvers konar rokk/poppferil frekar. Post Malone neitaði þessu og sagði að Stoney, væntanleg breiðskífa hans, yrði rappplata.

Ágúst 2016 – Hvar er Stoney?

26. ágúst rennur upp en hvergi bólar á Stoney. Degi síðar biðst Post Malone afsökunar á töfinni og lofar því að platan komi út bráðlega.

Desember 2016 – Stoney kemur loksins út

Þremur mánuðum síðar rennur dagurinn loksins upp og Stoney lendir í hillum plötuverslana.

Quavo kom fram í smellinum Congratulations sem hlaut platínumplötu í síðasta mánuði.NORDICPHOTOS/AFP

Mars 2017 – Congratulations fær platínuplötu

Smellurinn af Stoney, Congratulations, fær platínuplötu í mars. Í laginu eru engir aukvisar með Post Malone en gestur er Quavo úr hljómsveitinni Migos og á tökkunum er Metro Boomin, súper-pródúserinn sem hefur til að mynda gert smelli með Drake, Future og fleirum.

Júlí 2017 – Post Malone spilar í Hörpunni

Í sumar kemur svo vafalaust langstærsta augnablikið á ferli Post Malone þegar hann stígur inn í sjálfa Hörpu okkar Íslendinga og telur í White Iverson fyrir æsta aðdáendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.