Erlent

Fannst undir rúmi eftir umfangsmikla leit

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. vísir/getty
Breska lögreglan leitaði í dag að níu ára dreng sem ekki hafði skilað sér í skólann í bænum Gateshead á Englandi. Eftir þriggja tíma umfangsmikla leit fannst drengurinn undir rúmi heima hjá sér - hafði ekki viljað fara í skólann.

Móðir drengsins taldi víst að strákurinn, Josh Dinning, hefði farið sjálfur í skólann þegar hún vaknaði í morgun. Það runnu hins vegar á hana tvær grímur þegar skólinn hringdi og tilkynnti að sonur hennar væri ókominn.

„Ég hugsaði það versta,“ segir Michelle Dining, móðir drengsins í samtali við BBC. Hún hringdi samstundis á lögreglu sem kom og leitaði inni í húsinu. Í kjölfarið var farið í mikla leit og var þyrla meðal annars fengin til leitarinnar. Þá tóku nágrannar fjölskyldunnar þátt í leitinni með því að dreifa myndum af Josh í bænum.  

Eftir þriggja klukkustunda leit fannst Josh í felum í skúffu undir rúmi sínu en móðir hans hafði lagt til að leitað yrði öðru sinni í húsinu. Í það skiptið hafi lögregla lyft upp rúmunum.

„Ég beygði mig og sá græna litinn á skólabúningi Josh og brast í grát,“ segir hún.

Josh sagðist hafa heyrt í fólkinu leita að sér og talið betra að halda kyrru fyrir því annars yrði hann skammaður. „Ég hélt það yrði öskrað á mig og ég skammaður svo ég ákvað að vera bara þar sem ég var.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×